11.01.1917
Neðri deild: 22. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

48. mál, afnám laga

Sveinn Ólafsson:

Jeg held, að þetta frv. sje ótímabært, og það af þremur ástæðum.

Í fyrsta lagi af því, að efnahagur landssjóðs leyfir það tæplega, og þegar er búið að höggva stórt skarð í hann með ýmsum nauðsynjaráðstöfunum, sem þingið hefir gjört.

Í öðru lagi af því, að það er langt frá því, að menn hafi áttað sig á, hvað koma skuli í stað þessa gjalds.

Í þriðja lagi vegna þess, að vjer vitum ekki, hvernig fer um samninga vora, vitum ekki, hvern markað vörur vorar muni fá. Af þessum ástæðum tel jeg ekki rjett, að reka eftir þessu máli.

Jeg vil bæta við einni ástæðu enn. Það er sagt, að gjaldið sje órjettlátt, af því að það komi einungis niður á 2 stjettum (Skúli Thoroddsen: Einungis ein stjett í þessu landi). Það er spáný uppgötvun.

Jeg held því fram, að þetta gjald komi við fleiri en landbændur og sjávarútvegsmenn. Það kemur líka við kaupmenn og sjómenn og yfirleitt allar stjettir, nema embættismenn og þá, sem búlausir eru. Jeg hjelt ekki, að háttv. flm. frv. (B. J.) væri móti því, að þeir slyppu. Jeg leyfi mjer að leggja til, að málinu verði vísað til landbúnaðarnefndar, svo að það fái þar hægan og rólegan dauðdaga.