04.01.1917
Neðri deild: 14. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

26. mál, landauralaun

Sigurður Sigurðsson:

Jeg gæti í rauninni fallið frá orðinu, eftir ræðu hæstv. ráðherra (E. A.), því að hann sagði nokkurn veginn hið sama og jeg vildi sagt hafa. Jeg get ekki felt mig við dagskrá háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), þar sem hún gjörir ráð fyrir, að launamálið sje að öllu búið undir næsta þing. En jeg tel ógjörlegt með öllu, að eiga nokkuð við það mál, meðan þessir tímar standa yfir og afleiðingar þeirra. Hins vegar kann hugsunin í frv. háttv. þm. Dala. (B. J.), að hafa nokkuð til síns máls. En kynlegt er. það, að nú er farið fram á að sníða laun embættismanna eftir landaurum, þar sem jeg veit þó ekki betur en að embættismenn hafi kept eftir að fá breytingu á því fyrirkomulagi, í það horf sem nú er, að gjalda launin í peningum.

Auk þess hefi jeg ýmislegt við frv. að athuga, og tel því, að ekki geti komið til mála að samþykkja það að þessu sinni.

Jeg er ekki heldur að öllu leyti ánægður með þá rökstuddu dagskrá, sem komin er fram frá háttv. samþingismanni mínum (E. A.). Mjer þykir hún ekki nógu einföld. Vil jeg því leyfa mjer að leggja fram og lesa upp þá rökstuddu dagskrá, sem jeg helst kysi og vildi samþykkja:

Í því trausti, að landstjórnin athugi sjerstaklega, hvort eigi sje fœrt að miða launagreiðslur landsjóðs við landauraverðlag, og skýri síðan Alþingi frá niðurstöðu sinni um það, tekur deildin fyrir nœsta mál á dagskrá.

Jeg tel nógu langt gengið að þessu sinni, með því að fela landsstjórninni rannsókn málsins, er hún svo eftir á skýri Alþingi frá.