08.01.1917
Neðri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

33. mál, réttur landssjóðs til fossa o. fl. í afréttum

Flutnm. (Gísli Sveinsson):

Vjer Íslendingar erum fulltrúa um það, og á sama máli eru útlendingar, sem til þekkja, að hjer felst allmikið af auðæfum í jörðu og á, sem lítt hefir verið gætt og lítt notuð. Af slíkum auðæfum hefir mönnum orðið tíðræddast um þær afllindir, sem felast í fossunum, og það er víst, að þær hafa orðið til þess, að fjöldi manna hefir farið á kreik í því skyni að koma fossunum undir sjerstök yfirráð, ekki að eins innlendra manna, heldur og útlendinga.

Mín skoðun er sú, að það sje eitt af skilyrðunum fyrir sjálfstæði landsins, að varðveitt sje þau auðæfi, sem það hefir að bjóða, því að ef vjer eigum að lifa í landinu, þá þurfum vjer að eiga landið. En jeg skil ekki, að vjer fáum til fulls haldið sjálfstæði voru, ef útlendingar ná yfirráðum yfir þeim efnum, sem eru afl þeirra hluta, sem gjöra skal, og svo má með rjettu nefna afllindir landsins. Þótt oft sje svo að orði kveðið, að gott sje að veita peningum inn í landið, þá er hitt þó víst, að betra er að hafa óbundnar þær afllindir, sem síðar mega verða oss að notum. Og nú er svo komið, að mikið af afllindum og auðæfum landsins er þegar komið í hendur útlendinga.

Orsök þessarar tillögu er hið æðisgengna kapphlaup, sem geisað hefir eftir þessum auðæfum undanfarin ár, kapphlaup, sem bæði innlendir og útlendir braskarar hafa háð. Á síðastliðnu ári hefir stjórnarráðið lagt fyrir landsverkfræðingana, að gjöra mælingar á fossum landsins, sjerstaklega þeim, sem nothæfir eru. Mælingarnar hafa farið fram, en jafnframt hefir það komið í ljós, eftir þeim skilríkjum, sem fengist hafa, að nálega engir fossar eru eftir í eigu Íslendinga, því að þótt innlend fjelög eigi þá að nafninu til, þá eru þeir þó, eða eru að verða, í raun og veru eign útlendinga, næstum allir nýtilegir fossar. Það má segja, að þetta sje að kenna hirðuleysi eða handvömmum þings og stjórnar. Að vísu voru sett ákvæði um eignar- og umráðarjett o. fl. á fossum með lögum nr. 55, 22. nóv. 1907. En eftir þeim lögum geta hinir og þessir náð tangarhaldi á fossunum. Þó hefði stjórnin getað notað betur eignarnámsheimild þá, sem felst í 2. kafla nefndra laga, þegar almenningsheill krefst þess til mannvirkja í þarfir landsins eða sveitarfjelaga, eins og þar er að orði kveðið. Raunar er eignarnámið takmarkað við almenningsheill til mannvirkja, sem ef til vill þegar verða að vera ákveðin, þegar lögnám er gjört, en ef þinginu 1907 hefði verið málið ljósara, mundi það hafa orðað ákvæðið rýmra, og raunar hefði sjálfsagt mátt skýra það svo, að því hefði verið betur framfylgt en raun hefir á orðið.

En það er nokkuð seint að fara nú að tala um eignarnám á fossum, því að einmitt í skjóli tjeðra laga, hafa braskararnir farið sínu fram, og látið greipar sópa, svo að varla eru nokkurir fossar til í sömu eigu og þeir áður voru, þótt menn vildu beita eignarnámsheimildinni. En eitt getum vjer gjört. Vjer getum verndað það, sem enn er ótvíræð eign landsins. Nú er svo komið, hjer á Suðurlandi að minsta kosti, að sýslufjelög og sveitarfjelög eru farin að pranga með fossa í afrjettum eða jafnvel almenningum.

Jeg lít nú svo á, að fossar í afrjettum heyri ekki til afnota afrjettanna og sje því eign landsins. Að því er almenninga snertir, þá er það víst, að þeir heyra þjóðfjelaginu til, þótt einstakar sveitir kunni að hafa þeirra not, sökum þess að þeir liggja nálægt þeim.

Þessi þingsályktunartillaga gengur ekki lengra en það, að gæta rjettar landsins, í fyrsta lagi með því að rannsaka, hve langt yfirráðarjettur sýslu- og hreppsfjelaga nái, og þá hver hann sje að fornu fari, bæði eftir fornum lögbókum og eftir því, sem reynslan vottar. Eftir því sem jeg best veit, þá er engin heimild fyrir öðrum rjettindum sýslu- og hreppsfjelaga til afrjettanna en þeim, sem alkunn eru, sem sje beit, upprekstri, grasatekju, veiði o. s. frv. En það, sem í jörðu finst, eða afllindir þær, sem í afrjettunum eru, fellur ekki undir þessi rjettindi, og er því þessi yfirráðarjettur sýslu- og hreppsfjelaganna ekki ótakmarkaður og ekki annar en sá, sem notkun þeirra segir til frá fornu fari.

Mín skoðun er sú, eins og jeg hefi þegar tekið fram, að landssjóður eigi fossa og námur í afrjettum. Til stuðnings þessari skoðun, skal jeg leyfa mjer að skírskota til laga um nýbýli 6. nóv. 1897. Þessi lög heimila að stofna nýbýli eftir vissum reglum í landsvæðum, sem enginn, þ. e. þjóðfjelagið á, almenningum og afrjettum. Þetta sýnir, að löggjafinn telur afrjettina eign landsins en ekki þeirra, sem nota þá. Og þótt svo sje að orði kveðið í nefndum lögum, að leyfi hlutaðeigandi sveitarfjelags eða fjelaga þurfi að koma til, þá er það eðlilegt vegna þeirra nota, sem sveitarfjelögin hafa af afrjettunum. Þá er og sama leyfi sett sem skilyrði fyrir nýbýli í almenningum, sem vitanlega eru eign þjóðfjelagsins. Þetta ber vott um það, að sveitarfjelögin hafa að eins afnotarjett, en ekki eignarrjett á afrjettunum. Og yfirráðarjettur sveitarfjelaganna getur ekki verið víðtækari en jeg hefi talið. Því virðast mjer nefnd lög styðja mína skoðun um það, að sýslu- og sveitarfjelög hafi að eins yfirráðarjett yfir afrjettunum.

Í annan stað og einkanlega vil jeg benda á námulögin, nr. 50, 30. júlí 1909. Þar hefir löggjafinn ótvírætt sagt hver eigi þenna rjett. Jeg vil með leyfi hæstv. forseta lesa upp 1. atriði 1. gr. laganna til sönnunar því. Greinin hljóðar svo: „Sjerhverjum skal heimilt samkvæmt ákvæðum þeim, sem hjer fara á eftir, að leita málma og málmblendinga í jörðu eða landi, sem er óskift eign landsjóðs eða ljenskirkjujarða, svo og í almenningum, öræfum og afrjettum, sem eigi liggja undir jarðeignir einstakra manna eða sveitarfjelaga, sem metnar eru til dýrleika“. — Hjer kemur það berlega í ljós; að því er snertir námur í afrjettum, að þær eru eign þjóðfjelagsins, líkt og jeg held fram um fossa í afrjettum. Það er auðvitað nokkuð annað, ef afrjettur beint heyrir til tiltekinni jörð einhvers sveitafjelags, því að þá er hann að líkindum genginn frá þeirri jörð. En allir aðrir afrjettir, almenningar og öræfi heyra landinu til eftir lögunum og eftir hlutarins eðli. Sveitarfjelögin hafa ekki annan rjett yfir þeim en yfirráðarjett, rjett til upprekstrar, beitar o. s. frv. í öðru lagi er með till. farið fram á, að rifting fari fram á þeim gjörningum, er reynast koma í bág við rjett þjóðfjelagsins eða landssjóðs, og er það ekki nema sjálfsagt.

Sem sagt, til þess að sporna við eða reisa rönd við því, að vjer missum úr höndum vorum eignir landsins, og að þær lendi í þessu braski, sem gengið hefir yfir, er oss ráð að bjarga því, sem bjargað verður, og fyrir því hefi jeg flutt þessa tillögu.

Jeg býst ekki við því, að jeg þurfi að hafa lengri formála fyrir þessari tillögu. Jeg gjöri ráð fyrir því, að öllum háttv. þm. sje það jafnmikið áhugamál sem mjer, að reistar sje skorður við því, að eignir landsins gangi undan því, svo að ekki verði sagt eftir á, að þingið hafi ekki gjört það, sem í þess valdi stóð, til þess að halda að stjórninni að gjöra það, sem hún getur, til verndar eignum þjóðarinnar.