09.01.1917
Neðri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (611)

25. mál, kolarannsókn og kolavinnsla

Framsm. (Pjetur Jónsson):

Jeg ætla ekki að halda langa ræðu um þetta mál. Nefndin hefir, eins og sjá má á þgskj. 79, fallist á till. og leggur til, að hún verði samþ. með brtt. á þskj. 71, frá háttv. þm. Eyfirðinga.

Á síðasta þingi var rætt um kolamálið, og þá kom í ljós áhugi manna á því, að rannsaka til hlítar, hvort kol sje til hjer, og hvernig sjerstaklega megi gjöra sjer arð af þeim. Hitt er annað mál, hvort kolarannsókn geti komið að liði meðan stríðið stendur.

Nefndinni var ekki kunnugt um, hvað stjórnin hefir áður gjört í þessu máli, en hún telur það ekki ólíklegt, að önnur störf hafi tafið hana svo, að ekki hafi unnist tími til, að taka þetta mál til rækilegs undirbúnings.

Hjer er aftur á móti farið fram á það með þessari till., að stjórnin láti undirbúa þetta mál, hvað sem öllum kostnaði líður. Með öðrum orðum, það er skorað á stjórnina, að hún útvegi sjerfræðing og annað, sem þarf með til þess, að rannsókninni verði komið í framkvæmd, en engar áætlanir liggja fyrir um það, hvað þetta muni kosta. Það er ekki heldur með neinni vissu unt að giska á, hve miklu kostnaðurinn mundi nema, því alt fer eftir því, hve viðtæk rannsóknin yrði, en að öllum líkindum mun sú rannsókn kosta stórfje, svo að hjer er ekki í svo lítið ráðist.