15.12.1916
Sameinað þing: 1. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

Rannsókn kjörbréfa

Jón Magnússon:

Mjer virðist svo sem kjördeildin hafi farið nokkuð mjúkum höndum um sum kæruatriðin. Háttv. frsm. (B. J.) virtist álíta, að taka bæri gild öll atkvæði, sem greidd væru á kosningadegi, þótt kjósandi væri fjarstaddur. Slíkt hefir og viðgengist, en vafasamt er, hvort kosningarlögin leyfa það. Vafasamt hvort það er leyfilegt, að maður sendi atkvæði sitt skriflegt, sem staddur er innan síns eigin kjördæmis dag þann, er kosningar fara fram. Kjörstjórnir ættu því að vera varkárar í því, að leyfa slíkt. Það ætti ekki að vera nóg, að segjast ætla burt, en sitja svo heima og afgreiða atkvæði sitt skriflega einmitt kosningadaginn. Slíkt væri ólöglegt, og ætti því að ónýta þau atkvæði, sem svo er ástatt um. Enda ónýtti landskjörstjórnin atkvæði, við landskosningarnar, sem svo voru undir komin. Mjer finst því, að 1. kjördeild hafi farið nokkuð lauslega í þetta mál, því ef slíkt væri leyft, mætti eins vel taka burt kröfuna um, að mæta á kjörfundi. Heyrst hefir líka, að einn hreppstjórinn í Mýrasýslu hafi látið heimafólk sitt greiða atkv. skriflega, áður en hann fór á kjörfundi; kann þetta að vera lausafregn. Virðast þó fullmörg atkvæði vera greidd brjeflega í Mýrasýslu.