06.01.1917
Efri deild: 13. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

4. mál, Íslandsbanka leyft að auka seðlaupphæð

Framsögumaður (Hannes Hafstein):

Eins og tekið er fram í því stutta nefndaráliti um þetta mál, sem útbýtt var hjer í deildinni í fyrradag, hefir nefndin sannfærst um það, að þörf landsins á gjaldmiðli hafi aukist svo miklu örar eftir að heimsstyrjöldin hófst, heldur en ráð var gjört fyrir á síðasta þingi, þegar lögin frá 9. sept. 1915 voru sett og samin, að óhjákvæmilegt hafi verið að landsstjórnin gjörði ráðstafanir til að bæta úr þessu. Eins verður nefndin að viðurkenna, að annar vegur hafi ekki verið fær til þess eftir þing 1915 en sá, að gefa út bráðabirgðalög, er leyfðu þeim bankanum, sem einkarjett hefir til seðlaútgáfu, að auka seðlamagn sitt. Þetta var gjört, fyrst með bráðabirgðalögum 29. sept. 1915, er heimilaði ráðherra að leyfa Íslandsbanka að auka seðlaupphæð þá, sem gefa mátti út samkvæmt lögum 10. nóv. 1905, og lögum 9. sept. 1915, og með því að þau lög gengu aftur úr gildi í lok janúarmán. 1916, en fyrirsjáanleg var mjög ört vaxandi gjaldmiðilsþörf, voru 18. maí 1916 gefin út önnur bráðabirgðalög, er heimiluðu ráðherra, að auka seðlaupphæð bankans, svo sem viðskiftaþörfin krefur. Til þess að takmarka útgáfuna og greiða úr seðlaþörf Landsbankans eftir því, sem lögleg föng voru á, var hvorutveggja þessara heimildarlaga bundin sama skilyrðinu, eins og sett var af Alþingi 1915 í lögunum frá 9. sept. þ. á., sem voru þau:

1) að minsta kosti helmingur forðans til tryggingar seðlaupphæð þeirri, sem úti er í hvert skifti og fer fram úr 2½ milj. króna, sje málmforði,

2) að bankinn við lok hvers mánaðar greiði landssjóði vexti, 2% á ári, af upphæð þeirri, er seðlaupphæðin í hver mánaðarlok fer fram úr 2½ milj., og

3) að bankinn greiði ókeypis og eftir þörfum, í Reykjavík, samkvæmt brjefi eða símskeyti, fjárhæðir þær, sem Landsbankinn borgar inn í reikning Íslandsbanka við viðskiftabanka hans í Kaupmannahöfn, og flytji á sama hátt og ókeypis það fje, sem Landsbankinn þarf að flytja til Kaupmannahafnar, að svo miklu leyti, sem innieign Íslandsbanka þar leyfir.

Samkvæmt þessum síðari bráðabirgðalögum hefir ráðherra svo smám saman, eftir beiðni bankans og sannaðri þörf, leyft að auka seðlafúlguna svo, að í septembermánuði síðastliðnum voru seðlar í umferð fast að 5 ½miljón, í lok þess mánaðar 5200800 kr. Síðan hefir upphæð seðla farið smálækkandi.

Þessi bráðabirgðalög og hvert einstakt ráðherraleyfi til bankans til seðlaaukningar samkvæmt þeim, hefir verið gefið með ráði og eftir samþyktarákvæði þeirrar nefndar, sem á síðasta þingi var skipuð ráðherra til aðstoðar, til þess að ráða fram úr ýmsum vandræðum og vandkvæðum, er af heimsstyrjöldinni leiða, og er ekki annað kunnugt en að Velferðarnefndin, — svo hefir nefndin verið kölluð — hafi hlotið almenningslof fyrir þau afskifti sín af peningamálum landsins, enda má fullyrða, alveg hiklaust, að aðrar leiðir voru hvorki færar nje fulltryggar, til þess að bæta úr óumflýjanlegri og ómótmælanlegri gjaldmiðilsþörf. þörf, sem var svo brýn, að til stórvandræða og jafnvel neyðar hefði horft ef ekkert hefði verið aðhafst til þess að bæta úr henni.

Það sem svo mjög og svo ört eykur gjaldmiðilsþörfina, er engan veginn aukin útlán af bankans hálfu. Útlán Íslandsbanka voru talsvert meiri árið 1915 heldur en 1916, þegar peninga þörfin þó óx svo gífurlega. Lánin í Íslandsbanka voru :

Í Í Í Í

júní júlí ágúst september

1915: 7,676,948 8,486,653 8,4345,54 7,752,107

1916: 6,954,338 7,039,638 7,919,949 7,919,949

En árið 1916 fóru útborganir Íslandsbanka fyrir erlenda banka svo gífurlega vaxandi, að oft var mjög örðugt að standa straum af þeim.

Til samanburðar má geta þess, að sú upphæð, sem bankinn borgaði hjer út fyrir erlenda banka árið 1915, var 12,992,000 kr. alt árið, en frá 1. jan. til 30. nóv. 1916 var bankinn búinn að útborga á sama hátt ávísanir frá erlendum bönkum (sjerstaklega dönskum, norskum og enskum bönkum) yfir 22 milj. 748 þús. kr., sem hjerlendum mönnum höfðu þá greiðst fyrir innlendar afurðir. Auk þessa útborgaði Íslandsbanki hjer innanlands fyrir Landsbankann á þessum 11 mánuðum 1916, gegn greiðslu utanlands inn í erlenda banka miljón króna, en 1915 námu samskonar útborganir að eins 300 þús. krónum.

Hefði borgun ekki getað farið fram á þann hátt, að bankarnir hjer intu þær af hendi — og það hefði verið ómögulegt án seðlaaukningarinnar, vegna skorts á gjaldeyri —, þá hefði landið farið á mis við mikið af þessum viðskiftum og orðið að sæta gömlu aðferðinni, að senda vörurnar til útlendra milligöngumanna, og beðið við það tjón, bæði kostnað og verðafföll, sem hefði numið afarmiklum upphæðum og óþægindum. Sá kostur, sem með bráðabirgðalögunum um seðlaaukningu Íslandsbanka var gefinn á því, að auka gjaldeyri í landinu, án þess að flytja útlenda peninga til landsins, ef það á annað borð hefði lánast, hefir því áreiðanlega auðgað landið um eigi óverulega upphæð, upphæð, sem um þætti muna, ef tapast hefði. En arður Íslandsbanka af þessum viðskiftum, „Provisionin“, er tiltölulega mjög lítill, nema þegar jafnframt getur græðst eitthvað á útlendum peningum, utan Norðurlanda.

Á þessum tímum, og væntanlega einnig í framtíðinni, þarf mikið veltufje til þess, að dugnaðarmennirnir geti lagt fram magn sitt, og landið og sjórinn gagn sitt, svo að verulega muni um til auðs og þjóðþrifa, og auðið sje að standast samkeppni nágrannaþjóðanna í rjettu hlutfalli við möguleikana. Úr þessu hefir verið reynt að bæta eftir föngum með lagafrumvarpi því, sem hjer liggur fyrir. Enginn skoðanamunur um minni háttar fyrirkomulagsatriði nje gamlar eða nýjar flokkadeilur mega valda farartálma á leið þess.

En þar sem búast má við, að peningamál landsins, bankafyrirkomulagið sjerstaklega, verði tekið til rækilegrar athugunar á næsta reglulegu þingi, þegar tíminn er betri, leggur nefndin til, að gildi þessara laga sje bundið sömu tímatakmörkum eins og lögin frá 9. sept. 1915, svo að þau gildi að eins til 1. des. 1917, í því trausti, að þingið í sumar gjöri það, sem nauðsyn krefur.