12.01.1917
Efri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

44. mál, útflutningsgjald af síld

Kristinn Daníelsson:

Af því að jeg var einn í sjávarútvegsnefndinni, sem þetta frv. er frá, þá stend jeg nú upp til að segja fáein orð. Nefndin komst eftir rækilega íhugun að þeirri niðurstöðu, að rjett væri, að málið næði fram að ganga á þessu þingi. Hitt er einnig rjett, sem háttv. þm. Ísf. (M. T.) sagði, að tíminn væri stuttur, sjerstaklega fyrir Ed., að athuga og ræða málið. En það gleður mig þó að heyra, að hann er ekki með öllu mótfallinn frv., og jeg vona ekki heldur jafnvel, þótt það ætti að ná fram að ganga á þessu þingi. Það er einnig rjett tekið fram, að það var brýna þörfin á auknum tekjum fyrir landssjóðinn, sem miklu rjeð hjá sjávarútvegsnefndinni, en líka það, að vernda innlendan síldarútveg fyrir útlendum yfirgangi; því það eru allar horfur á, að hann sje að verða undir, ef sama heldur áfram, sem nú gjörist. Hitt alt, hver hætta af þessu frv. gæti stafað eða óhagræði frá viðskiftum við önnur lönd, hefir sjávarútvegsnefndin athugað, en þótt hún vildi alls eigi gjöra lítið úr því, þótti henni það ekki svo þungt á metunum, að hún þess vegna sæi ástæðu til að gefast upp við málið. Hafði hún og til ráðuneytis með sjer nokkra stærstu og helstu útgjörðarmenn, sem álitu að einnig mundi tækt að yfirvinna hina mestu örðugleika, sem af þessu kynnu að stafa, t. d. tunnuleysið og fleira, sem nefnt hefir verið.

Þá kom og til íhugunar, hvort ekki væri tiltækilegt að fresta málinu til næsta þings, og hvort það kæmi eigi að eins fullum notum á þann hátt; en það þótti þó drengilegra, einkum gagnvart Norðmönnum, að koma frv. fram nú þegar, heldur en að gjöra það rjett áður en veiðitími væri byrjaður.

Um leið og jeg vildi lýsa yfir þessari niðurstöðu sjávarútvegsnefndarinnar — hefði jeg kosið að drepa á ýms fleiri atriði máls þessa, sem nauðsyn væri á að rætt væri rækilega. En með því að enginn tími er nú til að hafa langar umræður, læt jeg sitja við þessar fáu athugasemdir.