11.01.1917
Efri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (975)

25. mál, kolarannsókn og kolavinnsla

Ráðherra Sigurður Jónsson:

Það hefir margsinnis verið tekið fram, að þetta þing .hafi einkum verið háð með það fyrir augum, að Ísland yrði fyrir sem minstum halla af heimsstyrjöldinni. Eitt af því, sem hjer til heyrir, er að sjá landinu fyrir viðunanlegum kolabirgðum. Nú á síðustu tímum hafa fundist kol hjer í landi, sem nokkuð hafa verið notuð. En þótt nauðsyn beri nú til að rannsaka þessa kolafundi, finst mjer að mjög örðugt muni verða, eins og stendur, að gjöra verulega mikið í þá átt. Hjer er ætlast til þess, að sjerfræðingar sje fengnir nú þegar til þess, að rannsaka kolafundina. Og hjer ekki um heimild að ræða, heldur beina áskorun til stjórnarinnar. Þessi rannsókn á ekki heldur að fara fram á einum stað, heldur á sem flestum stöðum, hvort sem þeir eru eign hins opinbera eða einstakra manna. Að vísu vil jeg eigi leggja á móti því, að tillagan nái fram að ganga, en jeg fæ ekki sjeð, að stjórnin geti neitt verulegt gjört í þessu máli. Það væri helst, að hún reyndi að útvega sjerfræðinga. En þeirra mun einkum að leita á Englandi eða í Þýskalandi. En jeg tel litlar líkur á að þeir fáist. Flestir munu hafa nóg við sína sjerfræðinga að gjöra á þessum tímum. Jeg hefi þess vegna litlar vonir um verulegar framkvæmdir í málinu fyrst um sinn. Ef á að haga framkvæmdunum eftir orðum tillögunnar, kosta þær mikið fje. Sjerfræðingar eru dýrir, og vinslan yrði að sama skapi mikil og erfið. Hjer væri nokkuð öðru máli að gegna, ef sá grundvöllur væri lagður, að verja til þeirra rannsókna, sem hjer ræðir um, allmörgum árum í röð, og fje til þess jafnframt veitt í fjárlögunum og sýnishorn af kolunum rannsökuð jafnóðum og þau falla til. Það tel jeg heppilegast fyrir þetta mál, sem jeg játa, að sje þýðingarmikið í sjálfu sjer. Þetta getur næsta þing athugað betur en nú er kostur á. Hitt tel jeg ekki líklegt til mikils árangurs, að ætla sjer að komast að takmarkinu nú í einu viðbragðsstökki.

Þessi þingsál.till. sver sig í ætt við fleiri tillögur, sem komið hafa fram á þessu þingi. Hún er fljótfærnislega orðuð, og á við litla rannsókn að styðjast. Það er líka einkennilegt, að hjer rignir niður þingsályktunartill., en svo að segja engin frv. hafa enn komið fram. Í þessari aðferð finst mjer kenna keims af því, að þm. þyki ljettast að varpa sem mestu af ábyrgðinni á breiðar herðar stjórnarinnar. Loks vil jeg endurtaka það, að jeg býst eigi við miklum framkvæmdum í máli þessu nú í bráðina.