27.12.1916
Efri deild: 5. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

Vinnubætur

Forseti:

Við forsetar deildanna höfum komið okkur saman um, til vinnuljettis, að láta búa til eyðublöð til afnota fyrir þingmenn, þegar þeir hafa hug á að krefjast einfaldrar dagskrár, nafnakalls, að umræðum skuli lokið eða hlutfallskosningum beitt.

Þessi eyðublöð verða látin liggja á borði hjá skrifurum, en útbýtt hefir verið meðal þingmanna smáeyðublöðum, til afnota, er þeir vilja biðja sjer hljóðs.

Það hefir verið siður að menn hafa beðið sjer hljóðs með því, að berja í borðið, en sá siður hefir ekki gefist vel. Forseti hefir oft ekki heyrt það, og þingmaður þá orðið útundan. Og nú er svo komið að forseti á að greiða atkvæði og því nauðsynlegt, að hann geti hlustað í næði á ræður þingmanna.

Það er heldur hvergi þingsiður erlendis, að menn biðji sjer hljóðs með barsmíð. Erlendis eru tveir siðir tíðkaðir. Annar er enskur; þar biðja menn sjer ekki hljóðs fyrirfram, heldur er það venja, að þegar einhver hefir lokið máli sínu, þá rennir forseti augum yfir þingbekki, og standa þá þeir upp, sem vilja taka til máls, grípa augnaráð forseta (to catch the eye of the speaker), en forseti ræður röðinni, ef margir standa upp í senn. Hinn siðurinn er sá, að mönnum er heimilt að biðja sjer hljóðs fyrirfram, en þó ekki fyr en málið er tekið til umræðu.

Er venjan yfirleitt sú, að menn senda miða til forseta, eða ganga sjálfir til hans, og láta skrifa sig. Þetta er líka miklu tryggara, Þá er engin hætta á því, að forseta sjáist yfir. Ef þingmaður vill að eins gjöra stutta athugasemd, þá er rjett, að hann standi upp og ávarpi forseta, án þess að senda beiðni. En þegar miklar umræður verða um mál, þá er þetta miklu þægilegra, skriflegar eða munnlegar beiðnir, bæði fyrir þingmenn og forseta. Barsmíðin er durnaralegur siður. Og öll hin eyðublöðin, ef menn óska einfaldrar dagskrár, nafnakalls, að umræðum skuli lokið eða hlutfallskosningum beitt, veita þingmönnum mjög mikil þægindi.