12.09.1917
Sameinað þing: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

64. mál, tollalög

Matthías Ólafsson:

Jeg vil að eins gera örstutta grein fyrir atkv. mínu og afstöðu minni til brtt. þeirrar, er hjer liggur fyrir.

Jeg sje mjer ekki fært að greiða atkv. með brtt., því að mjer líst, að þingið sje með því að hlífa þeim efnaðri, en að leggja meir á þann fátæka. Við vitum það, að hinir fátækari nota meir reyktóbak og neftóbak, en hinir efnaðri aftur vindla. Þessu er nú svo varið, að þótt menn vildu, þá er ekki hægt að venja fólk af allri nautn, og þeim, sem eru orðnir vanir tóbaki, líður illa ef þeir eru tóbakslausir. Þeim líður betur ef þeir hafa tóbakið, og störfin ganga betur úr hendi. Og ef fólkið — eins og nú lítur út fyrir — verður að sitja í kulda í vetur, þá held jeg, að því líði ekki ofvel, þótt það geti tekið í nefið eða fengið sjer væna tölu. En ef það hættir brúkuninni vegna þess, hversu tóbakið verður dýrt, þá fær landssjóður engar tekjur.

Efa verð jeg það, að það sje rjettmætt að leggja á neyslutolla, því að vitanlega lenda þeir oft á þeim, sem eiga mjög bágt, og það er hlægilegt að veita hjálp og heimta tolla af sama manninum.