07.08.1917
Neðri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1317 í B-deild Alþingistíðinda. (1088)

72. mál, hagnýt sálarfræði

Einar Jónsson:

Það er fjarri því, að jeg sje mótmæltur manni þeim, sem hjer er um að ræða, eða að jeg ætli að mæla á móti því, að hann haldi þeim styrk, sem honum hefir verið veittur og honum ber að halda, einmitt þar sem hann nú situr. En hjer finst mjer kenna nokkurrar heimtufrekju eða græðgi. Jeg minnist þess, að á þingi 1915 var farið fram á að stofna prófessorsembætti við Háskólann, handa dr. Guðm. Finnbogasyni. Þingið gekk ekki inn á það þá. Á sömu leið fór tilraun til að fá stofnað dósentsembætti, en loks varð það niðurstaðan að veita honum styrk til vísindalegra rannsókna í hagnýtri sálarfræði. Um þennan styrk varð að vísu dálítið stapp, en engin veruleg óánægja virtist vera með hann. Margir höfðu það við orð, og flestir munu hafa gengið út frá því, að ef einhver árangur sæist af starfinu, vinnuvísindunum, þá yrði styrknum haldið áfram. Nú hefi jeg ekki orðið var við, að það lægi neitt í lofti að skera niður þennan styrk, og taldi jeg því sjálfsagt að honum yrði haldið áfram. En mjer virðist ekkert liggja nær með embættisstofnunina nú heldur en 1915. Og það liggur líklega aldrei nær, því að verkefni hans er þannig varið, að hann þarf ekki að vera við Háskólann; lægi þá miklu nær að tilnefna búnaðarskóla, ef embætti skyldi stofna.

Háttv. frsm. (B. J.) tók það fram, að hann ætti meðal annars að kenna mönnum vinnubrögð við slátt, en sláttarkensla getur ekki farið fram við Háskólann. Jeg hefi gengið um gólfin í kenslustofunum, en ekki orðið var við, að þar væru nein slægjulönd. Jeg er sem sagt með því, að hann haldi styrknum, og ef hann á erfitt með að lifa af honum, væri sanni nær að fara fram á að hækka hann, en embættisstofnun er jeg alveg á móti. Það eru mikil líkindi til þess, að Guðmundur Finnbogason vinni vel fyrir þeim styrk, sem hann verður látinn hafa, ef hann er með vinnumönnunum, hvort heldur er við fiskvinnu, slátt eða hvað sem er. En það verður minna gagn að starfsemi hans, ef hann verður settur inn í Háskólann. Það þarf enginn að segja mjer, að nokkur læri vinnubrögð af því að hlýða á lýsingu á því, hvernig eigi að vinna, eins og ef hann tekur verkfærið og honum er sýnt, hvernig hann eigi að beita því. Það verður t. d. enginn góður sláttumaður við það að lesa bók um það, hvernig hann eigi að slá. Enginn verður nokkurn tíma góður sláttumaður nema hann venjist verkfærinu og læri að beita því.

Jeg skal ekki þreyta menn með langri ræðu. Það, sem jeg vildi taka fram, er þetta, að jeg get ekki verið með stofnun þessa embættis, sje enga ástæðu til þess nú, fremur en 1915, jafnvel lakari ástæður nú. Dr. Guðmundur fjell þá frá kröfu sinni um stofnun embættis og og gekk inn á, að honum yrði veittur styrkur. Nú er sjálfsagt að halda honum áfram, og hækka hann, ef þörf gerist. Embætti í Háskólanum er ekki til neins gagns fyrir vinnuvísindin. Ef maðurinn hefir nóg fje, til þess að geta gefið sig að starfinu, þá getur hann skrifað bækur eins fyrir því, þótt hann sje ekki prófessor. Jeg efast ekki um það, að bækur geti verið til mikils gagns, eins á þessum sviðum sem öðrum, og jeg veit, að mikið má af þeim læra, en aldrei eins mikið og af verklegri tilsögn. Hún verður að vera aðalatriðið. Embættisstofnunin gæti því dregið úr því gagni, sem maðurinn á að gera, auk þess sem jeg tel það mjög varhugavert að stofna konungleg embætti, eins og nú er högum háttað, nema brýn nauðsyn sje á.