25.07.1917
Neðri deild: 17. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

76. mál, mjólkursala í Reykjavík

Frsm. (Einar Arnórsson):

Það er óþarft að gera langa grein fyrir þessu frv.; það hefir þegar verið rætt í sambandi við mál það, er síðast var á dagskrá (einkasöluheimild mjólkur).

Ástæðan fyrir þessu frv. er sú, að gildandi lög vantar, er heimili bæjarstjórn að setja reglur um mjólkursölu í bænum. Jeg get nefnt t. d., að það hefir verið talið fullkomlega frjálst hverjum manni að selja brauð og mjólk, án þess að sá eða sú þyrfti að kaupa borgarabrjef. Þetta eru óskrifuð lög, sem gilt hafa allan aldur bæjarins. Reyndar stendur í mjólkurreglugerð bæjarins, að þeir, sem selja vilji mjólk, skuli sækja um það til lögreglustjóra. En þetta hefir verið skilið svo, að þeir þyrftu að eins að tilkynna honum það; þar með væri þeim salan frjáls. En þar sem nú þessi óskrifuðu lög eru fyrir hendi — mjer vitanlega er ekkert um þetta í lögum — þá leiðir af því, að þótt bæjarstjórn svifti einhvern mjólkursölu, þá mundi hann vinna mál sitt fyrir dómstólum, ef til máls kæmi. Fyrir því er hjer farið fram á að veita stjórnarvöldunum löglega heimild í þessa átt.

Í frv. eru sett ýms ákvæði, sem girða fyrir allan vafa um vald bæjarstjórnar og stjórnarráðs, en ekki hlýðir nú að gera nánari grein þeirra.

Með því að frv. er komið frá nefnd, má gera ráð fyrir, að það geti gengið leið sína nefndarlaust.