26.07.1917
Neðri deild: 18. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

80. mál, notkun bifreiða

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg verð að telja það vel farið, að frv. hefir komið fram, en vegna kunnugleika míns síðan jeg var lögreglustjóri hjer í bænum vildi jeg gera örfáar athugasemdir fyrir háttv. nefnd, er fær málið til meðferðar.

Jeg tel það rjettara að heimila viðkomandi sveitarstjórnum að ákveða hraðann. Er varla hægt að skipa svo fyrir um öll kauptún, að hann skuli ekki vera meiri en 10 km., því að mörg kauptún eru ekki þjettbýl.

Bæjarstjórnin hjer hefir ákveðið að hraðinn skuli vera 10 km. í bænum, og efast jeg um, hvort það er fyllilega lögum samkvæmt.

Að öðru leyti held jeg, að þessi breyting á lögunum sje til bóta. Sjerstakleg er alveg nauðsynlegt að hafa einhver tök á að ákveða gjaldið.

Ákvæðið í 3. gr., um einkennishúfuna, er í sjálfu sjer gott, en jeg hefi fremur litla trú á, að það gagni mikið, því að ef ekki er hægt að sjá merkið á bifreiðinni sjálfri, mun vera örðugt að sjá merkið á húfunni, sjerstaklega í myrkri. Þetta vildi jeg að nefndin tæki nánar til íhugunar. Jeg get ekki neitað, að mjer finst það óviðkunnanlegt ákvæði, ef t. d. eigandi ekur sjálfur bifreið sinni, að heimta, að hann noti einkennishúfu. Þetta mun ekki vera venja erlendis. Annars getur verið, að hjer sje átt við þá, er hafa bifreiðarstjórn að atvinnu og flytja fyrir borgun, en það þyrfti þá að koma skýrar fram.

Það væri í sjálfu sjer gott, ef hægt væri að takmarka næturferðir bifreiða. Hjer í Reykjavík eru þær oft hreinasta plága. En um sumar þeirra er svo háttað, að þær mun ilt að banna. T. d. getur verið, að menn sjeu fluttir í heimboð til vina sinna, og vilji fá flutning heim aftur að nóttunni; og þó að þetta sje ekki alveg nauðsynlegt, er þó efasamt, hvort slíkt eigi að hindra.