06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1377 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

92. mál, stofnun alþýðuskóla á Eiðum

Einar Arnórsson:

Jeg stend ekki upp til þess að andmæla frv.; því fer fjarri. En það er eitt atriði, sem mjer finst óviðkunnanlegt, og nefndin hefir að vísu athugað, en ekki gert svo úr garði sem vera ber. Jeg á við ákvæði 4. gr., um leigulausa íbúð skólastjóra og kennara. Frv. ætlar þeim, skólastjóra 2 herbergi, og aðstoðarkennara 1. Nefndin ætlar þeim rífari kosti, sem sje skólastjóra 3 herbergi auk eldhúss, og kennara 2 herbergi. Jeg verð að telja það næstum ótækt, að löggjafarvaldið fari að ákveða um húsakynni slíkra manna. Beinast liggur við, að stjórnin ákveði það, um leið og hún skipar í þessar stöður, en löggjafarvaldið leiði það hjá sjer. Jeg skal benda á það, að samkvæmt lögum er t. d. forstöðumanni Kennaraskólans ætluð leigulaus íbúð í skólanum; sama er að segja um forstöðumann Akureyrarskólans, og enn gildir sama um dyraverði ýmsra stofnana, en hvergi er það ákveðið, að þessir menn skuli hafa 1 eða 2 herbergi, enda væri það mjög smásmyglislegt. Ef ákvæði væru sett um þetta, þá þyrfti sjálfsagt líka að taka til um kjallara, geymslurúm og ræsting, hver ræsta ætti tröppur til vinstri, hver til hægri o. s. frv. Jeg get ekki felt mig við að setja ákvæði í lögin um þetta, heldur að eins ætla skólastjóra og kennara leigulausa íbúð. Jeg veit að vísu ekki, hvernig húsakynnum er háttað við þennan skóla, en stjórnin mundi spyrjast fyrir um það og tiltaka húsnæði eftir því. Ef nú svo færi, að nýtt hús yrði sett þarna í viðbót, og ástæða þætti til að fjölga herbergjum íbúðanna eða fækka, þá þyrfti lagabreyting til þess, því að ella hefði stjórnin enga heimild til þess; en jeg held sannarlega, að slík atriði þurfi ekki tilkvæmdar löggjafarvaldsins.

Jeg vænti, að háttv. nefnd taki þessa bending mína til greina; ella mun jeg sjálfur koma fram með brtt. í þessa átt við 3. umr.