06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

92. mál, stofnun alþýðuskóla á Eiðum

Einar Arnórsson:

Jeg er þakklátur háttv. frsm. (Sv. Ó.) fyrir það, hve vel og viturlega hann tók í aths. mína um íbúðirnar. Alt öðru máli er að gegna um háttv. þm. Dala. (B. J.), sem jafnan gengur illa að snúa frá villu síns vegar. Það er svo að heyra sem hann haldi, að stjórnin verði ekki rífleg í að skamta íbúðirnar eða þá ofríf; óhætt mun þó vera að trúa stjórninni fyrir því, að ekki hafi hún íbúðirnar svo rífar, að standi fyrir skólahaldi, einkum er hún hefir fyrir sjer bendingar háttv. mentamálanefndar.

Sami hv. þm. (B. J.) sagði, að kennendur mundu ekki fá fleiri hlunnindi, án þess að borga fyrir, og er það líklega rjett, eftir till. nefndarinnar. Stjórnin yrði þá sjálfsagt að krefja þá borgunar fyrir þvottahús, búrklefa eða þurkloft og útihús.

Það má vel vera, eins og háttv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að löggjafarvaldið lúti oft að litlu, en dæmið, sem hann tók, var hrapallega illa valið. Löggjafarvaldið skiftir sjer ekki af því, þótt menn hengi sig á snaga, enda er ekki greitt aðgöngu að ná til þess, sem hefir lógað sjer; annað mál er það, ef háttv. þm. Dala. (B. J.) horfir á mann hengja sig og bregður ekki við til þess að skera hann niður, hver sem stagið á, þá mundi löggjafarvaldið sjálfsagt hnippa í háttv. þm. Dala. (B. J.), þótt ekki sjeu þessi ákvæði eingöngu sett vegna hans (B. J.).

En, í alvöru að tala, býst jeg við því, að háttv. nefnd taki bending mína til greina, úr því að háttv. frsm. (Sv. Ó.) fanst hún rjett, og jeg veit, að háttv. þm. Dala. (B. J.) muni og verða á sama máli, þegar hann hefir hugsað sig um.