06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

92. mál, stofnun alþýðuskóla á Eiðum

Bjarni Jónsson:

Það þarf ekki að hengja háttv. 2. þm. Árn. (E. A.); háttv. háskólakennarinn (E. A.) hefir útlistað nákvæmlega, að það sje ekki bannað, jafnvel þótt hann eigi ekki snærið sjálfur. En um aðrar aths. hans er það að segja, að þær lýsa lofsamlegum áhuga og lærdómi úr húsaleigunefndinni hjer í Reykjavík; sýna þær, að stjórn landsins og Reykjavíkur falla vel saman og verða löggjafarvaldinu að góðum notum.

Háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.) sagði, að rjettara væri að halda dönsku en hegð sem skyldugrein. Ef danska er svo nauðsynleg, sem hann lætur, þá munu allir nemendur æskja kenslu í henni, þótt hún sje ekki skyldugrein, og er hún þeim þá heimil eftir till. nefndarinnar. En jeg hverf ekki aftur frá því, að ef einhver Norðurlandatunga á að vera skyldugrein, þá ætti það helst að vera sænska, af þeim ástæðum, sem jeg nefndi áðan. Og þótt háttv. þm. (J. J.) skilji sænsku, af því að hann hefir lært dönsku áður, þá mundi sjálfsagt líka mega snúa þessu við og segja, að ef hann hefði lært sænsku, mundi hann einnig skilja dönsku. En hví setur háttv. þm. (J. J.) ekki einhverra hinna stærri tungna, t. d. þýsku?

En mín skoðun er sú, að í alþýðuskólum beri fyrst og fremst að leggja áherslu á móðurmálið, en aðrar tungur ekki, fyr en nemendur hafa þá lært íslensku vel. Jeg vil því ráða mönnum til þess að fella brtt., einkum af því, að eftir henni á danska að vera skyldugrein, en nægilegt virðist að heimila tilsögn í þeirri tungu.