01.08.1917
Neðri deild: 22. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

93. mál, eignarnám eða leiga á brauðgerðarhús o.fl.

Einar Arnþórsson:

Mjer kom það ekki ávænt, að fram kæmi slík mótbára, sem kom frá háttv. þm. N.-Þ. (B Sv.), og jeg skal játa að fyrir geta komið þau tilfelli sem hann gat um sem sje að bakarar mundu geta reiknað út, að þeim væri hentast að láta taka af sjer hús og áhöld, verða síðan forstjórar þeirra fyrir hönd bæjarstjórnar, og láta svo tap verða á öllu og því notað sjer aðstöðu sína til að græða á. En til þess að girða fyrir þetta mætti orða viðaukatill. dálítið öðruvísi. Í rauninni held jeg samt, að í till. felist nægilegt til þess að girða fyrir þetta. Forstjórum er þar ekki veittur rjettur til þess að stýra stofnuninni framvegis; þeim er að eins veittur rjettur til atvinnu að öðru jöfnu; það er ekki sagt rjettur til stjórnar, heldur til atvinnu. Að öðru leyti má á sama standa fyrir bakarana; þeir hafa fjelagsskap sín á milli, og geta því mjög svo ráðið, hver kjör þeir vilja sætta sig við.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) gaf nú út í 2. útgáfu ummæli sín frá 2. umr., en ekki gat jeg fundið, að útgáfan væri nokkuð endurbætt. Hann kom þó með eitt nýtt, viðauka við 1. útgáfu, sem sje er hann sagði, að bakarar væru ekki verri en aðrir. Jeg hefi nú aldrei heyrt því haldið fram, enda er því engan veginn svo farið um þetta frv., að það bendi nokkuð í þá átt; hjer er að eins um varúðarráðstöfun að ræða. Og jeg man ekki betur en að háttv. þm. Dala. (B. J.) hafi orðið með í því að samþykkja svipaðar ráðstafanir, t. d. þegar verðlagsnefndin var sett, eða þegar þær ófriðarráðstafanir voru gerðar, að taka mætti vörur eignarnámi; þar var engin sönnun fram komin um það, að þessara ráða þyrfti að neyta, en varúðar vegna þótti rjett að setja þessi lög. En eftir kenningu háttv. þm. Dala. (B. J.) er óþarft að beita varúð; honum nægir að byrgja brunninn eftir að barnið er dottið í hann.

Nefndin hefir ekki getað borið sig saman um það, hvort rjett sje að taka málið út af dagskrá. Jeg fyrir mitt leyti hefi ekkert á móti því, ef það þykir horfa málinu til bóta.