25.08.1917
Efri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1475 í B-deild Alþingistíðinda. (1394)

131. mál, seðlaupphæð

Frsm. (Hannes Hafstein):

Eins og öllum er kunnugt er frv. komið frá fjárhagsnefnd Nd., og var það samþ. í þeirri háttv. deild. Þegar frv. var til meðferðar hjer í háttv. deild í vetur, var það samþ. með miklum atkvæðamun. Ástæðurnar eru enn hinar sömu, og tel jeg því óþarft að rökstyðja frv. frekar en þá var gert, enda mun þörfin öllum nægilega kunn. Jeg vil að eins geta þess, að það fer fjarri því, að seðlaþörfin hafi minkað síðan í vetur; hún hefir þvert á móti aukist og eykst stöðugt. Jafnvel þótt ýmisleg viðskifti, sem krefjast mikillar peningaveltu, sjeu ekki byrjuð, er þó seðlaveltan meiri nú en um sama leyti síðastliðið ár. Enn eru síldar- og fiskkaup ekki byrjuð, af því að veðrátta hefir verið óhagstæð útgerðinni, en til þeirra viðskifta þarf mikið fje. Má því búast við enn meiri veltu og enn meiri seðlaþörf, þegar að þeim viðskiftum kemur.

Til sönnunar því, að velta bankans hafi þrátt fyrir þetta aukist á þessu ári, skal jeg leyfa mjer að lesa upp nokkrar tölur.

Í júlímánuði í fyrra var mest í umferð af seðlum kr. 3.210.570, en í júlímánuði síðastliðnum mest kr. 3.762.280. Í ágúst 1916 mesta umferð kr. 3.850.650, en nú, 25. ágúst, eru í umferð kr. 4.200.000. Þetta sýnir, að seðlamagn það, sem bankanum er leyft í lögunum frá 10. nóv. 1905, 2½ miljón króna, er öldungis ónógt nú. Leyfi jeg mjer því að vænta þess, að háttv. deild samþ. frv.

Eins og frv. kemur nú frá háttv. Nd. hefir verið gerð á því ein breyting frá frv. í vetur. En sú breyting er ekki veruleg efnisbreyting og ætti því ekki að fæla menn frá að samþ. það nú. Því hefir verið bætt inn í frv., að seðlaaukningin skuli ekki vera meiri en viðskiftaþörfin krefur. Í raun og veru er þetta engin breyting. Samkvæmt frv., sem lá fyrir þinginu í vetur, þurfti leyfi stjórnarinnar til seðlaaukningar, og hefði hún að sjálfsögðu miðað leyfið við viðskiftaþörfina. Þessi breyting dregur ekki úr þeim kvöðum, sem á Íslandsbanka eru lagðar.