10.08.1917
Neðri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1484 í B-deild Alþingistíðinda. (1403)

146. mál, almenn hjálp

Einar Arnórsson:

Eins og tekið hefir verið fram eru till. meiri hlutans, á þgskj. 335, að eins að einu leyti ósamræmar till. minni hlutans, sem sje í því, að meiri hlutinn vill ekki láta landssjóð taka neinn þátt í verðhækkun á helstu nauðsynjavörum. Mörgum kann líka að virðast svo, sem það sje hin mesta fjarstæða, en það er nú ekki. Það er kunnugt, að víða annarsstaðar hefir þessi aðferð verið höfð, og skal jeg nefna sem dæmi Kaupmannahöfn; þar hefir bæjarstjórnin varið miljónum króna í því skyni, og svo er einnig víða annarsstaðar.

Það má náttúrlega finna sitt að hverju, bæði að áliti meiri og minni hlutans, og deila um, hvort betra sje, en eitt er þó víst og það er það, að óheppilegasta frv. er frv. háttv. þm. V. Sk. (G. Sv.), en af því, að það er ekki til umr. nú, skal jeg sleppa því að fara frekar út í það. Það er auðsjeð, að meiri hlutinn hefir farið eftir till. minni hlutans og tekið þær upp lítið breyttar, en dálítið, og það til hins verra. 2. gr. þessa frv. er svo að segja tekin orðrjett eftir 7. gr., stafl. a, og 3. gr. orðrjett eftir stafl. b. (S. S.: Þetta er 1. umr). Jeg ætla hæstv. forseta að grípa fram í fyrir mjer, ef jeg brýt þingsköp. (B. J.: 1. þm. Árn. (S. S.) vill ráða yfir 2. þm. Árn. (E. A.), af því að hann álítur sig hærri í þingmannstigninni). Þessar 2 greinar eru að mestu samhljóða, nema að einu leyti, því að meiri hlutinn segir, að þessi lán skuli ekki teljast sveitarstyrkur, ef þau eru greidd innan 10 ára. Fyrir það fyrsta hefir meiri hlutinn bætt þarna við málfræðilegum hortitti, og í öðru lagi hefir hann líka gert efnisbreytingu, því að svo er að sjá, sem lán þessi eigi að skoðast sveitarstyrkur, ef þau eru ekki borguð innan 10 ára. Þetta er á hverfanda hveli, enda er hjer farið aftan að siðunum, því að annaðhvort verður þetta að heita sveitarstyrkur eða ekki. Í okkar till. var gert ráð fyrir, að farið væri að borga lánið þegar að ófriðnum loknum, og að þau skyldu aldrei teljast sveitarstyrkur. Annars má vel vera, að nefndarhlutarnir geti komið sjer saman um þetta atriði.

Þetta, sem háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) sagði, að meiri hlutinn hefði ekki getað fallist á fyrirsögn frumv., lýsir meira en litlum vandræðahætti hjá honum að geta ekki komið með brtt. við fyrirsögnina. Reyndar skal jeg játa, að fyrirsögn þeirra á frv. á þgskj. 335 er ekki sjerlega vel orðuð, svo að það hefir ef til vill verið heppilegra að reyna ekki að breyta fyrirsögn okkar. Að minni hlutinn hefir ekki viljað vinna með meiri hlutanum kemur til af því, að það var auðsjeð, að leiðir þeirra voru skildar til fulls, og þeir gátu því ekki unnið saman. Ef meiri hlutinn hefir verið óánægður með ákvæði minni hlutans, var innan handar fyrir hann að koma með brtt. við brtt. minni hlutans, eða brtt. við frv. sjálft. Meiri hlutinn gat líka sagt: 1. gr. orðist svo o. s. frv., og sparað með því umr. að nokkru leyti. Annars er jeg meiri hlutanum þakklátur fyrir það, að hann hefir á ýmsan hátt fallist á till. minni hlutans, og ekki heldur skelt alveg skollaeyrunum við þeirri hugsun, sem kom fram í frv. háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.). Það er nærri því eins og meiri hlutinn hafi verið hræddur við að gera nokkrar till., sem í raun og veru skifta máli, því að það má fara svo með till. hans í 1. gr., að þær komi að sáralitlu haldi, og 2. og 3. gr. eru líkar og hjá minni hlutanum. (P. J.: Þær eru þó skárri). Hugsun minni hlutans var sú, að landssjóður greiddi nokkuð af verðhækkuninni á allra helstu nauðsynjavörutegundum, sem allir þurfa með, t. d. brauði og eldsneyti. Þessu má koma þannig fyrir, að tvent vinnist við það, í fyrsta lagi það, að enginn þyrfti að líða skort, og í öðru lagi er hægt að jafna með því þann halla, sem almenningur bíður af dýrtíðinni, á mörg ár, og ef til vill fleiri kynslóðir en þessa. Þessu er alveg eins varið og því, er bóndi bíður mikinn halla eitthvert ár. Hann reynir að halda búinu og tekur til þess lán sem hann borgar aftur á löngum tíma. Hjer er alveg sama máli að gegna. Þetta er herkostnaður okkar Íslendinga, sem við verðum að reyna að borga á þann hátt, sem þægilegastur er.

Ef minni hlutinn hefði sjeð sjer fært, þá hefði hann gengið lengra í frv. sínu en þetta. En hann bjóst við því, að þessi háttv. deild mundi ekki taka því vel. Það hefði verið rjettast í þessu máli að ganga enn lengra en minni hlutinn hefir gert, og rjettara af háttv. deild að taka málinu betur.