22.08.1917
Neðri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1505 í B-deild Alþingistíðinda. (1421)

146. mál, almenn hjálp

Pjetur Jónsson:

Mjer dettur ekki í hug að virða það á lakara veg fyrir hæstv. forsætisráðherra, þótt hann sje nú á eitthvað breyttri skoðun og hallist að því að selja vörur undir verði. Í viðtali, sem hann átti við nefndina, þegar hún hafði þetta mál til umr., skildi. jeg orð hans svo, að hann væri fremur mótfallinn því að ganga inn á þessa stefnu, en teldi þó enga frágangssök að selja eina eða tvær vörutegundir. undir verði að einhverju leyti. Jeg hefi ekki mikla tryggingu fyrir því, að það yrði að miklum notum, þótt stjórnin fengi heimild til að selja vörur undir verði. Jeg tel að minsta kosti hæpið, að sú heimild kæmi að tilætluðum notum úti um land. Eins og menn muna er í lögum heimild fyrir stjórnina til ívilnunar á flutningskostnaði á landssjóðsvörum til hafna úti um land. En stjórnin hefir ekki sjeð sjer fært að nota heimildina neitt verulega, eða ljetta undir með þeim, sem fyrst verða að borga afardýran flutning á vörunni hingað til Reykjavíkur, eins og aðrir, og síðan aukaflutning, einfaldan og tvöfaldan, hafna í milli innanlands. Fyrst að stjórninni hefir ekki lánast að halda betur á þessari heimild, þá er ekki beint nein trygging fyrir því, að henni takist betur með nýja heimild. Hæstv. forsætisráðherra vildi, að reynt væri að komast að einhverri niðurstöðu, sem menn gætu orðið sammála um, og óskaði því eftir, að nefndin tæki málið til nýrrar yfirvegunar. Jeg hefi ekki orðið var við, að málið sje að færast neitt í þá átt, að líklegt sje, að menn verði sammála. Stefnumunurinn er svo skýr, að jeg hefi ekki mikla von um, að menn sannfæri hver annan eða komi sjer saman. Ef nokkur von væri um samkomulag, þá væri það helst með því, að stjórnin kæmist fyrst að einhverri niðurstöðu sjálf. Ef hún kæmi sjer saman um og kæmi með till. um einhver bjargráð, sem hún hefði sjálf trú á að væri við hlítandi, þá segi jeg fyrir mitt leyti, að jeg væri eigi sá tregasti til að fylgja henni. Jeg hefi oft gert það áður að fylgja stjórn möglunarlaust, þegar hún hefir ráðið fram úr einhverju vandamáli, þótt jeg hafi eigi verið hæst ánægður. Eins mundi jeg gera nú, ef stjórnin hefði eitthvað fram að flytja, sem hún væri sjálf eindregið með, þótt till. hennar væru ekki alveg gallalausar í mínum augum. — Jeg hefði kosið, að hæstv. forsætisráðherra vildi hlýða á orð mín. —

Jeg hefi þá ekki fleira að taka fram, nema það, sem snertir orð háttv. þm. Dala. (B. J.) um 10 ára frestinn. Mjer er það reyndar ekki svo mikið kappsmál. Það, sem meiri og minni hluta nefndarinnar ber á milli um þetta atriði, er ekki svo mikið. Báðir ætlast til, að veitt sje lán, ef þörf gerist, og báðir ætlast til, að skuldin sje greidd á 10 árum, ef hún þá er ekki gefin eftir, en það er alls ekki útilokað. Munurinn er því ekki annar en sá, að annar vill, að skuldirnar fyrnist alt í einu, þegar þessi 10 ár eru liðin, en hinn vill, að það, sem þá er ógoldið og ekki eftir gefið, verði talinn sveitarstyrkur. Jeg hygg nú reyndar, að sveitarstjórnirnar geti hagað þessu eftir vild. En nefndarhlutarnir ættu að bera sig saman um þetta atriði, og tel jeg víst, að þeir muni geta samrýmst um það.