14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1541 í B-deild Alþingistíðinda. (1458)

146. mál, almenn hjálp

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg þarf ekki að vera langorður. Jeg hefi svo oft tekið til máls um þetta efni, að jeg hefi nú litlu við það að bæta, sem jeg hefi áður sagt. Á öndverðu þingi, eða áður en þing kom saman, var það öllum ljóst, að vandræði mundu standa fyrir dyrum. Það er ekki síður ljóst nú, eftir því sem veturinn nálgast, að víða muni verða þröngt í búi í sveitum, en þó miklu fremur í kaupstöðum. Svo hefir farið, að á þessu sumri hefir ýmislegt á móti blásið, meira en búist var við, og eykur það auðvitað á vandræðin, sem fyrir dyrum standa.

Þessi háttv. deild gat ekki fallist á þá leið, sem jeg lagði til að farin yrði, til að fyrirbyggja vandræðin, en háttv. Ed. hefir bætt ofurlítið úr þessu.

Það er nú þegar búið að taka fram ýms atriði, sem snerta þetta mál, svo að jeg get verið fáorður. Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) gat þess, að þessi niðurfærsla væri ekki nægileg. Jeg er honum alveg sammála um það. Jeg er sannfærður um það, að það verður að jafna verðið öðruvísi, ef að haldi á að koma. Sveitarsjóðir og bæjarsjóðir verða að hlaupa undir bagga með það. Fátæklingar geta ekki keypt kol fyrir 20 kr. skippundið, og því síður auðvitað fyrir 40—50 kr. skippundið. Þeir geta ekki keypt þau fyrir öllu meira en þau kostuðu fyrir stríðið. Það, sem þar er á milli, verða bæjarsjóðirnir og sveitarsjóðirnir að borga. Þessi leið, sem háttv. Ed. leggur til að sje farin, mætti ekki miklum andmælum þar, en jeg hefi orðið þess var, eða mjer finst það liggja í loftinu, að hjer þyki hún óalandi og óferjandi.

Jeg skil reyndar ekkert í því, að þessi leið skuli þykja óalandi og óferjandi hjer, þar sem hún hefir þó verið farin alstaðar annarsstaðar að meiru eða minnu leyti. Danir hafa t. d. varið 50 milj. kr. til niðurfærslu á örfáum lífsnauðsynjum á einu ári. Þessi till., sem háttv. Ed. hefir samþ., er mjög takmörkuð og kemur ekki nema að litlu liði, — því miður, — af því, sem með þyrfti. Jeg skil því ekkert í því, að hún skuli mæta þeirri mótspyrnu, sem raun er á, þar sem hún er að eins tilraun til að bæta úr allramestu erfiðleikum þeirra, sem bágt eiga. Ef menn bera því við, að þeir vantreysti sveitar- og bæjarstjórnum að úthuta þessum kolum, þá ímynda jeg mjer, að til þess sje engin ástæða. Því mun óhætt að treysta, að þær geri það eftir bestu þekkingu. Jeg skal ekki segja, að ekki geti komið fyrir, að eitthvað fari öðruvísi en best gæti verið, en yfirleitt mun óhætt að treysta því, að þeir fái kolin, sem helst þurfa þeirra með.

Jeg hefði viljað, að þessi tillaga hefði verið ofurlítið víðtækari, hefði t. d. náð líka yfir brauð og brauðefni. Menn lifa nú orðið afarmikið á brauði, bæði til sjávar og sveita, og má gera ráð fyrir, að það verði því meira notað, þess meira sem dýrtíðin eykst, ef hægt verður að fá það fyrir það verð, sem menn geta risið undir. Niðurfærsla brauðverðsins hefði því komið að almennari notum. En það er ekki til neins að tala um það. Þessi háttv. deild hefir felt þá brtt. frá umræðu, sem fór fram á að gera hjálpina víðtækari. Háttv. Ed. vildi fara lengra en þetta, en sá sjer það ekki fært vegna háttv. Nd.

Því hefir verið skotið fram í umræðum hjer í deildinni, að ekki þyrfti að fara þessa leið, þar sem búið er að veita heimild til lána, sem geti bætt úr þörfinni, þar sem hún er brýnust. Þessi ráðstöfun hygg jeg að nægi ekki ein til hjálpar þeim, er mesta hafa þörf á liðsinni, og ekki heldur ein út af fyrir sig hagkvæm fyrir landssjóð. Hvers vegna á þá ekki að fara þá leiðina, sem hagkvæmust er og kemur að mestum notum?

Jeg lofaði því í upphafi að tala ekki langt mál. Jeg hefi áður farið ítarlega út í þau atriði, sem að þessu máli lúta, og læt mjer því nægja að skírskota til þess, sem jeg hefi áður sagt. Jeg get þó ekki leitt hjá mjer að víkja nokkrum orðum til háttv. 1. þm. Árn. (S. S), áður en jeg sest niður. Hann sagði, að ef þessi leið yrði farin, þá yrði það að eins til þess, að nokkrum mönnum væri ívilnað, en aðrir yrðu út undan.

Það getur verið, að einhverjir verði út undan og að einhverjir óverðugir slæðist inn, en yfirleitt má þó gera ráð fyrir því, að allur þorri þeirra, sem hjálp fær, sjeu hennar þurfandi. Það er nú einu sinni svo, undir líkum kringumstæðum, að ekki er unt að framkvæma fylsta rjettlæti. Jeg þykist vita, að hv. 1. þm. Árn. (S. S.) man enn eftir jarðskjálftunum síðustu. Þá voru hjeruð austan fjallgarðsins, sem voru illa stödd, og flest nærliggjandi bygðarlög rjettu þeim hjálparhönd, þau sem urðu ekki fyrir tjóni. Vel má vera, að einhver hafi þá fengið hjálp, eða rífari hjálp en aðrir, sem fremur hefðu þurft þess með, en yfirleitt hygg jeg, að hjálpin hafi komið sjer vel. Það væri í það minsta ógerlegt að láta það aftra sjer frá að hjálpa öðrum, fyrir þá sök, að einhver kynni að fá hjálp, sem ekki þyrfti hennar. Jeg veit ekki, hve mikið Reykjavík hefir þá lagt fram; jeg skýt því til háttv. þm. (S. S.) að rannsaka það.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) sagði, að borgarafundur hefði ekki verið haldinn út af þessu máli. Þetta er ekki alveg rjett; borgarafundur var haldinn og dýrtíðarmálin rædd þar, raunar ekki af æsingi, heldur með stillingu, en mjer finst fundurinn ekki hafa minna gildi fyrir það. Jeg mintist á þetta af því, að hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) sagði áðan, að hann myndi ekki eftir neinum borgarafundi um þetta efni.