12.09.1917
Efri deild: 55. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1633 í B-deild Alþingistíðinda. (1559)

164. mál, tekjuskattur

Kristinn Daníelsson:

Mig langar til þess að gera stuttlega grein fyrir atkv. mínu, þó að jeg hafi ekki neitt sjerlegt að segja, sem hefir ekki áður verið minst á, því að oft getur þó verið ástæða til þess að undirstrika orð, sem þegar hafa verið sögð, til áherslu og skilningsauka. Jeg vil taka það afdráttarlaust fram, að jeg álít, að þetta frv. megi ekki með nokkru móti verða að lögum, eins og það er nú orðað. Og skal jeg nú reyna að færa til nokkur rök, þessari skoðun til stuðnings.

Minst hefir verið á það atriði í frv., að sparisjóðir og bankar sjeu skyldir að gefa upp innieignir manna. Það má ef til vill segja, að þetta sje ekki afarmikilsvert atriði, en jeg vil þó minna á eitt í því sambandi, sem hv. framsm. (H. H.) gat ekki neitt um. Þessum innieignum er sem sje oft svo farið, að bankastjórnin hefir ekki hugmynd um hver þær á. Menn geta komið í bankann og keypt sjer sparisjóðsbók og lagt peninga inn á númer bókarinnar eitt. Af þessu getur það stafað, að allskonar misrjetti komi fram í skattaálagningunni. Jeg legg þó ekki aðaláhersluna á þetta atriði, en það eru aðrir agnúar á frv., sem gera það óhafandi. Mesta áhersluna verður að leggja á það atriði, að ætlast er til, að lögin verki aftur fyrir sig. Það er alveg óheyrt og ótækt. Jeg man eftir því, að einu sinni var um það rætt á þingi að hækka toll á vínföngum og láta þau lög ná aftur fyrir sig um nokkra mánuði. Það þótti þá óhæfa, og stóð þó svo á, að vínkaupmenn höfðu komist á snoðir um, að tollhækkunin stæði fyrir dyrum og höfðu notað það til að birgja sig mikið upp. Samt þótti það ógerningur. En nú er farið fram á að leggja þungan skatt á menn og beita honum heilt ár aftur í tímann. Skatturinn af tekjunum frá 1916 verður innheimtur 1918, svo að heilt ár verður á milli. Hjer er því beinlínis farið aftan að mönnum, því að vitanlega hefir enginn getað gert ráð fyrir þessum skatti og hagað útgerð sinni eftir því. Jeg tel því sjálfsagt að samþykkja brtt. hv. þm. Ísaf. (M. T.), eða brtt. háttv. þm. Vestm. (K. E.) að öðrum kosti. Hv. þm. Snæf. (H. St.) leit svo á, að fráleitt væri, að brtt. hv. þm. Ísaf. (M. T.) kæmust að, því að þá væri tekjunum frá árinu 1916 slept við þann skatt, sem gjalda beri samkvæmt lögunum frá 1877. Sami skilningur kom og fram hjá hæstv. fjármálaráðh. (S. E). En sannleikurinn er sá, að það er alls ekki um neinn slíkan skatt að ræða samkvæmt lögunum frá 1877, því að landbúnaður og sjávarútvegur eru einmitt þar undanþegnir skatti. Ef brtt. háttv. þm. Ísaf. (M. T.) ná fram að ganga, er því alls ekki verið að sleppa mönnum undan skatti, sem nú sje í lögum, heldur einungis spornað við, að nýr skattur verði lagður á, sem á að gera með þessu frv.

Jeg ætla ekkert að fara að metast um það, hvers vegna þetta frv. sje fram komið. Jeg geri ekki ráð fyrir, að tilgangurinn hafi verið sá, að ráðast á neina sjerstaka stjett, en hitt er víst, að þetta kemur ákaflega þungt niður á mótorbáta- og botnvörpungaútgerðinni. Jeg get að sjálfsögðu tekið undir það, að rjett er að taka tekjurnar þar, sem þær eru mestar fyrir, en ekki þykir mjer ólíklegt, að sú skriða, sem hjer er verið að reyna að koma af stað, geti sópað meiru af tekjum með sjer en góðu hófi gegnir. Mönnum vex mjög í augum, hve botnvörpungaútgerðin gefi mikinn arð af sjer, en aðgætandi er það, að sum botnvörpungafjelögin eru kornung og útgerðin að langmestu leyti rekin með lánsfje. Sama er að segja um mótorbátaútgerðina, sem sumir kaupstaðir og sjávarsveitir hvíla nú algerlega á. Jeg þekki kauptún, sem hafa alla atvinnu sína að kalla af mótorbátaútgerðinni einni. Þessum mönnum væri því gert stórkostlega rangt til með því að leggja þannig lagaðan skatt á þá, er næði fram fyrir sig. Jeg tek það fram, að skilyrðið fyrir því, að jeg greiði frv. atkv., er það, að brtt. þessi verði samþ.

Þessi brtt. var aðalatriðið. Jeg skal ekki eyða orðum að hinum brtt., er minna máli skifta, en vil þó geta þess, að jeg álít allar brtt. á þgskj. 884 til bóta.