10.09.1917
Neðri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1841 í B-deild Alþingistíðinda. (1790)

54. mál, húsmæðraskóli á Norðurlandi

Pjetur Jónsson:

Jeg er gamall flm. þessa húsmæðraskóla, sem hjer er til umr., og ætla því að láta uppi álit mitt í örfáum orðum. Jeg get þá lýst yfir því, að jeg er ekki alls kostar ánægður með frv., eins og það nú liggur fyrir, nje hversu það er rökstutt í nál., bæði í Ed. og Nd. Mjer þykir það sem sje vanta, að skýrt sje tekið fram, að skólinn skuli standa í sveit, vera sniðinn eftir sveitalífinu og óháður beinum áhrifum frá kaupstaðalífinu. Á þingi 1907 flutti jeg ásamt hv. 1. þm. Eyf., Stefáni Stefánssyni, skólastj.,og núverandi forsætisráðherra frv. til laga um stofnun 2 húsmæðraskóla í sveit, annars á Norðurlandi og hins á Suðurlandi. Niðurstaðan varð nú samt sú, að skólinn skyldi að eins verða einn og standa á Norðurlandi, því að Sunnlendingar virtust ekki þá kæra sig mikið um slíkan skóla hjá sjer. Þannig fór málið hjeðan úr deildinni, að ákveðið var, að skólinn skyldi vera einn og standa í sveit norðanlands, og jeg vildi með leyfi hæstv. forseta leyfa mjer að lesa 1. gr. frv., sem þá var samþykt hjer, því að hún sker skarpar úr. Hún hljóðar svo:

»Á Norðurlandi má stofna skóla, er nefnist húsmæðraskóli, með því markmiði að veita konum þá kunnáttu, bóklega og verklega, sem nauðsynleg er hverri húsmóður í búandastöðu og gerir hana færa um köllun sína. Skólinn skal vera í sveit, þar settur, sem hagkvæmast þykir til aðsóknar af Norður- og Austurlandi, og hafa jörð til nauðsynlegra afnota. Stjórnarráðið ákveður að öðru leyti, hvar skólinn er settur.«

Svona byrjunar á lögunum hefði jeg frekar óskað. Frv. er í þessu tilliti ekki skýrt, en jeg verð þó að álíta, að það hallist frekar að því, að skólinn standi í sveit, þar sem hann verði sem minst háður áhrifum kaupstaðarlífsins. En ef brtt. á þgskj. 853, sem fer fram á, að heimavistunum sje fækkað niður í 30, verður samþ., þá er það auðsætt, að skólanum er ætlað að verða svo nálægt Akureyri, að hann geti orðið heimangönguskóli. Þetta hefir verið þrætuepli í mörg ár á milli Akureyringa og Þingeyinga, og það er óhætt að fullyrða, að Þingeyingum fylgi þar að málum allar sveitir Eyjafjarðar, og það er því á móti óskum Norðlendinga, ef þessi skóli verður kaupstaðarskóli. Hjer liggja fyrir þinginu áskoranir frá konum á Norðurlandi, í tveim flokkum. Hinum fyrri er safnað af Akureyrarkonum 1915. Hinar síðari eru frá sveitunum og undirskrifaðar á þessu ári. Það er kunnugt, að ýmsar sveitakonur skrifuðu undir með Akureyringum 1915, þótt þær væru ekki sömu skoðunar þá um skólastaðinn, en þær vissu þá ekki um hreyfing á þessu máli í sveitunum, og þessi hreyfing á Akureyri hin eina, sem þær þá vissu um, og flutt með miklu kappi. Nú eru allmargar af sömu konunum, sem skrifa undir áskoranirnar um skóla í sveit, og er það vitanlega áhugi flestra sveitakvenna, sem þegar er orðinn rótgróinn um alt Norðurland og víðar. Þær konur, sem kunnugar eru slíkum skólum erlendis og jeg hefi ráðgast um þetta við, álíta rjettara, að skólinn standi í sveit. 1909 var þetta mál hjer á ferðinni í þinginu, en var ekki samþ. í frumvarpsformi, en skrifað allítarlegt nál. og rakin þar saga þessa máls, og enn fremur drepið á skólafyrirkomulag í þessa átt, bæði í Danmörku og í Noregi. Jeg hygg, að þeir, sem athuga þetta mál eins rækilega og þar var gert, hljóti að hallast að því, að heppilegra sje að hafa skólann sveitaskóla. Loks var á þinginu 1909 skorað á stjórnina að undirbúa málið fyrir næsta þing. Einu sinni hafði Búnaðarfjelag Íslands þetta mál með höndum og hjelt um hússtjórnarskóla hjer í Reykjavík. Það komst þá að þeirri niðurstöðu, að nauðsynlegt væri að hafa skólann í sveit, en treysti sjer ekki til að standa straum af slíkum skóla. Það losaði sig svo við allan veg og vanda af hússtjórnarskólanum hjer í Reykjavík, sem ekki er annað en matreiðsluskóli, af því að hann gat ekki náð þeim tilgangi, sem Búnaðarfjelagið vildi að næðist. Hann hefir þó haft góða kenslukrafta og hefði efalaust getað orðið góður skóli á rjettum stað.

Hvað frv. snertir, þá ætla jeg að greiða því atkvæði, enda þótt jeg sje ekki alls kostar ánægður með það. Jeg hygg hvort sem er, að ekki verði mikið um skjótar framkvæmdir, en það getur verið gott að tryggja það, að einhver undirbúningur verði gerður nú á næstu árum, en við því má búast, ef frv. verður samþykt nú. Jeg ætla því að greiða atkvæði með því, svo framarlega sem brtt. verður feld, en ef hún verður samþykt, mun jeg greiða atkvæði á móti því.