10.09.1917
Neðri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1847 í B-deild Alþingistíðinda. (1794)

54. mál, húsmæðraskóli á Norðurlandi

Matthías Ólafsson:

Það var að eins örstutt athugasemd, sem jeg vildi gera, Jeg sje, að þessi brtt., sem jeg hefi komið með við frv., getur orðið því að falli, ef jeg held henni fram til streitu, en það var fjarri mjer að ætlast til þess.

Jeg skal ekki blanda mjer í deiluna um það, hvað sje í grend við Akureyri og hvað ekki, annað en það að segja, að jeg hefi altaf skilið »í grend við Akureyri« þannig, að miðað væri við það, að skólinn væri ekki fjær Akureyri en svo, að stúlkur þaðan gætu gengið heiman að í tíma í skólanum. Hvað því viðvíkur, að ekki sje hægt að fá bújörð í grend við Akureyri, þá skal jeg geta þess, að mjer sýnist trúlegt, að kaupstaðurinn gæti látið skólann hafa einhverja jörðina, sem hann á þar rjett hjá. Jeg man nú í svipinn eftir þessum jörðum, sem kaupstaðurinn á í grend við Akureyri: Hamarskoti, Naustum og Eyrarlandi. Auk þess á Akureyri Kjarna og gæti lagt skólanum til slægjur þaðan. En, sem sagt, jeg skal ekki blanda mjer í þessa deilu, en tek tillögu mína aftur, svo að hún verði ekki málinu að tjóni.