30.07.1917
Efri deild: 17. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1902 í B-deild Alþingistíðinda. (1925)

106. mál, breyting á tilskipun og fátækralögum

(Flm. Eggert Pálsson):

Þetta frv. fer fram á, að breytt verði sektarákvæðunum fyrir að gefa saman hjón, sem þegið hafa sveitarstyrk og ekki goldið hann aftur. Það nær því ekki eingöngu til presta, heldur einnig til sýslumanna og bæjarfógeta. Við þessu broti liggur nú afarþung refsing. Í ástæðunum fyrir frv. er vísað til hæstarjettardóms árið 1873 yfir Jóni sál. Hjartarsyni, sem var dæmdur í meira en 500 ríkisdala sekt og auk þess skyldaður til þess að forsorga afkvæmi hjónanna. Svipaðir dómar hafa síðar fallið yfir fleiri presta.

Við flutningsmenn höfum ekki þorað að breyta öðru eða meiru en að nema úr gildi ákvæðið um, að. prestur eða sýslumaður sjeu skyldir til þess að sjá fyrir börnunum. En þó að við höfum ekki dirfst að fara lengra, þá væri ef til vill vert að athuga, hvort ekki væri rjett að nema líka burt skylduna um að borga sveitarstyrkinn, en láta sektina eina nægja, sem mætti þá ef til vill vera hærri. Við höfum bygt frv. á því, að presturinn eða sýslumaðurinn má nú gefa saman hjón, þó að hann viti um skuldina, ef þau eða einhver annar greiðir hana á undan. Og þar sem svo er ástatt, þá virðist ekki rjett að krefjast meiri endurgreiðslu en að skuldin verði kvittuð, þó að vígslan fari fram áður. Hitt, sem nú er í lögum, að presturinn eða sýslumaðurinn greiði, auk skuldarinnar sem á hvílir, lífeyri fyrir öll börn hjónanna, er bæði afaróeðlilegt, og refsingin kemur þar að auki ójafnt niður. Ef t.d. tveir prestar gera sig seka í þessu sama broti, þá þarf annar þeirra ef til vill ekkert að greiða, meira en sjálfa skuldina, en hinn verður má ske að borga með 10— 20 börnum, er hjón þau, er hann gaf saman, kunna að eignast. Það má enn fremur segja, að þetta lagaákvæði sje í raun og veru ósiðlegt. Því að sú freisting liggur sem sje mjög nærri, ef einhver verður fyrir slíku óhappi að gefa slík hjón saman, að hann fari að óska, að börn þeirra verði ekki sem langlífust.

Jeg býst ekki við, að jeg þurfi að fara um þetta frekari orðum að sinni, en jeg tel nauðsyn bera til, að málið verði sett í nefnd, þar eð þetta er svo mikilsvert rjettarspursmál. Sú nefnd gæti þá einnig athugað, hvort ekki væri heppilegast að halda sektinni einni, svo sem jeg mintist áðan á. Jeg veit, að ýmsir lögfræðingar líta svo á, að það sje í raun og veru langheppilegasta leiðin í þessu efni.

Mjer þykir, fyrir mitt leyti, rjettast, að málið fari til allsherjarnefndar; það er óheppilegt að vísa því til nefndar, sem á ekki kost á lögfræðingi, en í allsherjarnefnd eru, eins og kunnugt er, ekki einn, heldur meira að segja tveir lögfræðingar.