30.07.1917
Efri deild: 17. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1904 í B-deild Alþingistíðinda. (1927)

106. mál, breyting á tilskipun og fátækralögum

Forsætisráðherra (J. M.):

Mjer virðist háttv. flutnm. (E. P.) fara villur vegar, er hann talar um lögin, sem nú gilda. Þau líta svo á, að prestur, er gefur saman hjón án þess, að skilyrði þau, er lögin setja, sjeu fyrir hendi, drýgi með því lagabrot, er hann eigi að bæta fyrir. En það er einungis fyrir ókominn skaða, sem presturinn er skyldur að bæta. Jeg skyldi því ekki sjá eftir því, þótt prestarnir væru leystir undan þessari skaðabótaskyldu og að það væri numið úr lögum, að menn, sem stæðu í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk, mættu ekki ganga í hjónaband. En ákvæðin í frv. þessu eru óþörf. Hugsum okkur, að efnamaður gangi að eiga konu, sem á mörg börn og hefir þegið af sveit. Þá er sýnilegt, að sveit konunnar losast við mikil gjöld. Hvaða sanngirni er þá í því, að prestur greiði þessari sveit fje, sem hún hefir aldrei látið sjer detta í hug að hún fengi endurgreitt? Ekki er það prestinum að kenna, að skuldin hefir verið stofnuð, og mælir ekkert með því, að hann sje skyldaður til að greiða hana. Því hygg jeg það rjettustu leiðina að nema úr lögum ákvæðið um, að þeginn sveitarstyrkur komi í veg fyrir, að sá, sem þegið hefir, geti gengið í hjónaband. Þetta gæti stundum orðið til þess að koma byrði af einni sveit yfir á aðra, en varla myndi það oft koma fyrir.

Að öðrum kosti væri rjettast að láta nægja sektarhegningu fyrir presta. En þetta nýja ákvæði, að prestar greiði áfallna sveitarskuld, er ekki rjettlátt og engin rjettmæt ástæða fyrir því. Vilji því Alþingi sleppa því ákvæði, að sveitarstyrkur hindri hjónabönd, eða að öðrum kosti láta nægja sektir, teldi jeg það stóra bót á lögunum.