15.08.1917
Efri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1944 í B-deild Alþingistíðinda. (1987)

128. mál, stofnun landsbanka

Frsm. (Magnús Torfason):

Jeg skal ekki deila um gæslustjórana. Þess gerist ekki þörf, frá mínu sjónarmiði. En um launahækkunina vil jeg geta þess, að öllum er kunnugt um, hversu lífsnauðsynjar hafa hækkað í verði.

Og hvað það snertir, að bankastjórnin yrði ekki fastari í sessi, þó að bankastjórarnir væru þrír, þá er það misskilningur. Í greinargerð fyrir frv. var tekið fram, að los væri á bankastjórninni nú, vegna sjerstakra atvika, sem eigi er gott að ráða við.

Mjer finst sjálfsagt, að einn bankastjóranna að minsta kosti sje fast skipaður, svo að þeir allir væru eigi dægurflugur, er ynnu dægurverk. Jeg get ekki skilið, að komist verði hjá því, að bankastjórnin þurfi að taka ábyrgðarmiklar og víðtækar ráðstafanir, sem hljóta að hafa afarmikla þýðingu fyrir hag bankans á næstu tímum. En ekki geta menn búist við því, að menn, sem að eins eru settir bankastjórar, fari að bollaleggja og bera ábyrgð á þýðingarmiklum ráðstöfunum. Þess vegna höfum við flm. og þeir, sem eru okkur sammála, litið svo á, að það væri hreint og beint vansæmd fyrir þingið að láta stjórn bankans vera í þessu reiðuleysi, þegar mest á ríður. (H. St.: Kemur frv. í veg fyrir það?) Já, jeg býst við, að bráðabirgðaástand þetta verði eins stutt og hægt er. En taka verður tillit til ýmsra örðugleika, sem ekki er auðvelt að yfirstíga.

Við vitum, að peningakreppa er mjög mikil hjer á landi, og það mun koma í ljós, að þröngt verður í búi hjá landssjóði. Og jeg hygg, að besta ráðið til að komast úr þeim kröggum sje að leita aðstoðar Landsbankans. En slíkar ráðstafanir taka eigi settir bankastjórar.

Jeg vil í þessu sambandi drepa á, að það vakir fyrir mörgum, að lífsnauðsyn sje að fá eins mikið fje frá útlöndum inn í landið, til ýmsra stórfyrirtækja, og unt er. Það er skoðun helstu fjármálamanna, að afarerfitt muni verða að fá fje að láni í útlöndum að ófriðnum loknum. En nú er hægt að fá talsvert fje, ef menn leggja sig í framkróka. (H. H.: Það liggur ekki laust fyrir). Rjett er það, og ef ætti að koma því í framkvæmd, þyrfti einn bankastjóranna að vera langdvölum í útlöndum. En þá sje jeg ekkert vit í því, að einn settur bankastjóri stýri bankanum á meðan, þar sem annar gæslustjóranna er einnig settur, jafnviðsjárverðar og horfurnar eru nú. Því að eins og útlitið var glæsilegt fyrir atvinnuvegum vorum í fyrra, eins óglæsilegt er það nú. Það þarf því bæði þrek og framsýni til þess að sjá bankanum borgið annars vegar, og hins vegar, að bankinn verði ekki ofnaumur á hjálp til manna, svo að þeir geti haldið áfram atvinnuvegum sínum. En allir vita, hver styrkur það er fyrir menn að vera fastir í sinni stöðu, á móts við það að vera svo að segja í lausu lofti og vita, að allar ráðstafanir þeirra geta verið eyðilagðar.

Þar sem 2 háttv. deildarmenn eru ekki á fundi, og háttv. þm. Ak. (M. K.) mintist á, að hann óskaði að koma með brtt., vildi jeg gera það að till. minni, að þessari umr. verði frestað.