10.08.1917
Neðri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2086 í B-deild Alþingistíðinda. (2144)

110. mál, fátækralög

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Það var öðru nær en að jeg vildi á nokkurn hátt sveigja að hæstv. forsætisráðherra eða öðrum, sem um lögin hafa fjallað, með orðum mínum. Jeg hafði, satt að segja, ekki gætt að því, hverjir samið höfðu lögin, og ef vitað hefði, mundi jeg hafa afsakað þá frá notkun laganna og reynslu, sem nú er orðin, því að á sínum tíma voru lögin rjettarbót.

Eins og hæstv. forsætisráðherra tók fram er nú margt breytt frá því að lögin voru sett, og jeg get einkarvel felt mig við þá till. hans, að málinu verði vísað til nefndar, til þess að skýrt komi fram, hverra breytinga menn óska.

Út af því, sem háttv. þm. A.-Sk. (Þorl.J.) tók fram, að fólk úr sveitum dveldi í sjávarþorpum, en færi síðan á sveitirnar aftur, með öðrum orðum, að sveitirnar kostuðu uppeldi mannanna og yrðu svo að taka við þeim síðar, er þeir yrðu ósjálfbjarga, þá finst mjer sú niðurstaða undarleg. Þess ber þá einnig að gæta, að fólk flyst líka úr kaupstöðunum í sveitirnar. T. d. elur Reykjavík upp miklu fleira fólk en stærstu sýslur landsins, en öll sú viðkoma lendir ekki í Reykjavík, heldur dreifist um landið. Af þeim 80 þús. kr., sem Reykjavík ver til þurfamanna, gengur allmikið til manna, sem eru hjer ekki sveitlægir, en að eins dvelja hjer, en einmitt hjer sækjast menn mjög eftir að ná sveitfesti; gamalt fólk vill heldur vera hjer en annarsstaðar. Þess vegna á það ekki við að segja, að kaupstaðir verði hlunninda aðnjótandi frá sveitunum, og svo framarlega sem hægt er að flytja þurfamenn burt úr dvalarstað, þá má segja, að ekki sje um langa dvöl að ræða, nema umrenningar eigi í hlut, eða menn, sem fljótlega verða fyrir þeim áföllum, að þeir geta ekki bjargað sjer.