23.08.1917
Neðri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2094 í B-deild Alþingistíðinda. (2151)

110. mál, fátækralög

Jörundur Brynjólfsson:

Háttv. allsherjarnefnd hefir ekki sjeð ástæðu til að láta endurskoða fátækralögin, og leggur því til, að tillaga mín verði ekki samþykt. Jeg varð var við það við upphaf þessarar umræðu, að hæstv. forsætisráðherra þótti tillagan nokkuð beiskyrt, þar sem hann ætti hlut að máli. Jeg lýsti yfir því þá, að jeg samdi tillöguna með tilliti til þess, hvernig lögin hafa komið við, en ekki með tilliti til þeirra, sem lögin hafa samið. Jeg tók það líka fram þá, að jeg aðgætti ekkert, hver hefði samið lögin, svo, að ekki gat komið til mála, að jeg væri að sneiða að hæstv. forsætisráðherra með henni. Það getur vel verið rjett, að erfitt sje að koma fátækralögunum í rjettlátt horf. Jeg er háttv. frsm. (M. G.) samdóma um það. Ef jeg hefði álitið það auðgert, þá hefði mjer ekki dottið í hug að fara þessa leið. Þá hefði jeg miklu frekar reynt að fá einhverja þingmenn í lið með mjer til þess að gera breytingar og flytja þær fram. Jeg viðurkenni það fúslega, að þetta sje vandaverk, og þess vegna tók jeg það ráð að reyna að fá þingið til að vísa málinu til stjórnarinnar og láta hana hafa góðan tíma til að undirbúa það rækilega. Jeg hefi því ekki gert ráð fyrir, að stjórnin ætti að hafa lokið þessum undirbúningi fyr en fyrir næsta reglulegt Alþingi, þótt þing verði haldið fyr.

Háttv. frsm. (M. G.) hefir rakið þau atriði, sem jeg álít helst þurfa að breyta í lögunum, og er hann mjer sammála um það, að sum ákvæðin sjeu órjettlát.

Það er ekki alveg rjett, að sveitfestitíminn sje neitt aðalatriði hjá mjer. Það var háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.), sem lagði mesta áhersluna á það. Þetta breytir nú ekki miklu, því að jeg er svipaðrar skoðunar og hefi tekið þetta atriði upp í brtt. mína á þgskj. 535. Aðalatriðið hjá mjer var rjettindamissirinn. Mjer finst sárt til þess að vita, að menn þurfi að glata frelsi sínu og missa mannrjettindi, þó að þeir geti ekki fleytt fram fjölskyldu sinni sökum fátæktar. Þetta viðurkennir háttv. allsherjarnefnd líka. Mjer virðist, eftir orðalaginu á nál. að dæma, að nefndin væri fús á að láta laga þetta, ef hún teldi það fært. En jeg er þá hissa á því, að hún skuli ekki vilja láta gera tilraunir til þess. Þótt málinu sje vísað til stjórnarinnar, þá er ekki svo að skilja, að hún sje skyldug til að koma fram með frv., ef henni reynist það ekki fært eða telur það óþarft. Jeg held, að þeir menn, sem á annað borð eru frjálslyndir og skilja, hve sárt það er að missa mannrjettindi sín, — jeg held, að þeir hljóti að viðurkenna, að það sje nauðsynlegt að lagfæra þetta. Við skulum taka til dæmis fjölskyldumann, dugnaðarmann, sem elur önn fyrir 6—8 börnum. Hann slasast og getur ekki unnið. Þá getur hann ekki lengur sjeð fyrir fjölskyldu sinni og verður að leita til sveitar. Hann missir auðvitað við það mannrjettindi sín. Setjum svo, að hann komist á fætur aftur, verði vinnufær, geti að fullu unnið fyrir fjölskyldu sinni og ef til vill smám saman borgað sveitarstyrkinn. Mjer finst, að þegar svona stendur á, þá ætti á engan hátt að skerða mannrjettindi þeirra manna.

Það er sem sje mestur vandinn, ef breyta á þessu ákvæði og þessum lögum, að bæta úr misrjetti því, sem nú á sjer stað, og gera lögin rjettlátari, en jeg efast ekki um, að það sje hægt með góðum vilja, og þótt hv. þingd. kunni ekki að vilja sinna málinu nú, þá mun þó ekki á löngu líða áður en að því rekur. Í nál. er um þetta atriði vitnað í 53. gr. fátækralaganna. Þar ræðir um, hvað teljast skuli sveitarstyrkur. Kenslueyrir og bækur, svo og greftrunarkostnaður þurfamanna, er ekki talið til sveitarstyrks.

Þetta atriði er gott, en það nær altof skamt. Þetta gat verið talsverð bót á þeim tíma, sem lögin voru gefin, en síðan hefir svo margt breyst, þótt lögin sjeu ekki nema 11 ára gömul. Auðvitað hefir þetta ákvæði komið til þannig, að milliþinganefndin hefir sjeð, að það var óbærilegt að telja kenslueyri sveitarstyrk, en síðan hygg jeg, að skoðanir manna hafi breyst svo, að menn vilji nú gera bæturnar enn rífari. Eins og það er nú talið sjálfsagt, að börn jafnt ríkra sem fátækra njóti kenslu kostnaðarlaust, eins munu menn nú telja sjálfsagt, að öll börn fái gott uppeldi, og sje þá til þess veitt ofurlítil hjálp, heldur en að börnin líði og geti síður orðið nýtir menn, vegna viðurværisskorts. Jeg hefi ekki látið neitt það í ljós, er finni að því, að nefndin, sem útbjó lögin á sínum tíma, hafi unnið illa; síður en svo. En öllum er það kunnugt, að atvinna manna hefir stórum breyst frá þeim tíma; nú eru fleiri, sem lifa af handafla sínum en þá, verkamenn, sjómenn og iðnaðarmenn, og nú er mönnum búin meiri hætta, fyrir sakir atvinnu sinnar, svo að menn eiga fremur á hættu að verða fyrir slysum nú en þá; nú eru allar ábyrgðir og slysatryggingar með oss mjög í bernsku, og þær varla til, er hjálpað geti mönnum, ef slasast frá vinnu. Þess vegna er og nauðsyn að ganga lengra í endurskoðun þessa atriðis.

Mjer er ekki ljóst, hvers vegna nál. vitnar í 61. gr. fátækralaganna; þar er að eins talað um, að ekki megi refsa þurfalingum án leyfis lögreglustjóra.

Um sveitfestitímann get jeg verið stuttorður; það getur verið álitamál og kemur til athugunar um leið og þetta atriði.

Þá er fátækraflutningur. Jeg tók það fram við fyrri umr., að í mörgum tilfellum yrðu þurfalingar ekki fyrir illri meðferð, en að þó mætti tryggja þetta betur, eins og hin atriðin. Það kemur þó fyrir, að ekki fer vel um þurfalinga á flutningi. Jeg vil t. d. benda á, að þegar konur eru sendar með skipum með 2—3 börn, einar síns liðs, þá líður þeim oft illa, vegna sjóveiki, og ef enginn hefir verið beðinn fyrir að rjetta þeim hjálparhönd, eiga þær fult í fangi með að hugsa um sjálfar sig. En þegar fólk er flutt á landi, þá er oft ekki valin stysta leiðin, en æskilegt væri, að þurfalingarnir væru einmitt sendir beina leið. Mjer þætti mikilsvert, ef athugað væri, hvort hjer væri ekki hægt að ráða bætur á.

Við fyrri umr. þessa máls að eins drap jeg á viðskifti sveitarstjórnanna, einkum frest þann, sem gert er ráð fyrir í 66. gr. fátækralaganna, en þá fór jeg ekki neitt nánara út í það, að eins sagði, að fresturinn væri ofstuttur. Jeg vil nú benda háttv. frsm. (M. G.) á það, að það getur oft verið ómögulegt að útvega þessa skýrslu, sem 66. gr. ræðir um, á ½ mánuði. Það er altítt hjer í Reykjavík, að konur sitja hjer með börn, en maður þeirra er fjarverandi. Ef þær nú þurfa hjálpar, þá getur oft svo farið, að þær vita ekkert, hvar þær eða maður þeirra á sveit, skýrsla þeirra getur orðið röng, og oft getur farið svo, að mánuði taki að rannsaka, hvar maðurinn á sveitfesti. Borgarstjóri hefir sagt mjer, að þetta hafi þráfaldlega komið fyrir. Mætti nú ekki lengja þennan frest, til þess að dvalarsveitinni þyrfti síður að blæða?

Um dæmi háttv. frsm. (M. G.), að menn gætu þurft sveitarstyrk, þótt að eins eitt barn ættu, get jeg ekki annað sagt en að þá hljóta alveg sjerstakar ástæður að vera fyrir hendi, óhöpp, slys, eða þá, að ekki er um mikla dugnaðarmenn að ræða.

Sami háttv. þm. (M. G.) bar fyrir sig umsögn stjórnarráðsins um það, að ágreiningur um þessi mál væri orðinn miklu minni, með því að menn vissu nú orðið í flestum tilfellum, hvernig úrskurðir þess mundu falla. Þetta virðist mjer benda á það, að þótt lögin hafi verið góð í upphafi, þá hafi þó sum ákvæði þeirra verið óljós, svo að úrskurði hafi þurft, þótt vel geti nú líka verið aðrar ástæður.

Sami háttv. þm. (M. G.) sagði enn fremur, að lögin væru ekki svo gömul, að þörf væri að breyta þeim. Jeg hefi nú vikið að því, að alt er orðið mjög breytt, frá því að lögin voru sett, þótt ekki sje langt síðan; en jeg vil einnig í því sambandi benda á það, að styttra var liðið frá stjórnarskrárbreytingu, þegar stjórnarskipunarlögin voru sett, heldur en nú frá því að fátækralögin voru sett, og voru þar þó einmitt aukin mannrjettindi manna. Auðvitað kom þetta til af því, að menn voru orðnir frjálslyndari og treystu fleirum til að hafa áhrif á meðferð landsmála en áður höfðu haft.

Jeg skal að endingu taka það fram, að þótt hæstv. forsætisráðherra væri í nefnd þeirri, er í upphafi útbjó fátækralögin, þá tel jeg ekki, að honum þurfi að vera óljúft að endurskoða þau. Jeg ímynda mjer, að hann telji þau ekki óskeikul, nje að þau eigi að standa svo eða svo lengi án breytinga. Það er fjarri mjer að ætla nokkuð slíkt, enda hefi jeg ekki heyrt nokkurt orð frá honum, er gefi tilefni til þess að ætla slíkt.