07.09.1917
Neðri deild: 54. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2164 í B-deild Alþingistíðinda. (2244)

161. mál, uppeldismál

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get ekki sjeð, að neinn munur sje á þessum 3 till., því að jeg kalla dagskrána líka till., og tel jeg því sama, hver þeirra er samþykt. Að vísu er það skýrt tekið fram á þgskj. 798, að nefnd skuli skipuð í málið. En jeg hafði ímyndað mjer, að þótt samþykt væri till. háttv. þm. Dala. (B. J.), yrði ekki komist hjá að fá fleiri eða færri hæfa menn til að athuga málið. Það mundi ekki kosta ýkjamikið. Jeg vissi það fyrst eftir skýringu háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.), að dagskráin átti að útiloka kostnað; annars hafði jeg ekki skilið hana svo. Að vísu býst jeg við, ef skólar verða lagðir niður, að hægt sje að heimta af kennurum að rannsaka málið borgunarlaust. En, eins og háttv. þm. Dala. (B. J.) drap á, er ekki víst, að athuguninni verði lokið áður en skólarnir verða teknir upp aftur. Að minsta kosti vona jeg, að þeir verði teknir upp fyr en svo, að sanngjarnt sje að heimta, að þessari rannsókn sje lokið. (E. A.: Þá verður þing aftur). Já, en jeg sje enga ástæðu til að útiloka, að einhver borgun komi fyrir þetta starf, og býst ekki við, að það yrði mikill kostnaður. Það getur verið alveg rjett að samþykkja brtt. háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.), því að þar sem fræðslulögin hafa nú staðið í 10 ár, er nú kominn tími til að athuga þau af nýju. Yfirleitt er full ástæða til að athuga og rannsaka þetta mál, og veit jeg, að ráðuneytið mun taka vel í að framkvæma þetta, sem hjer er farið fram á. En mjer þætti rjettast að samþykkja till. á þgskj. 451 eða 798, og get ekki litið svo á, að á þeim sje nokkur verulegur munur, því að í báðum tilfellum er sagt, að málið eigi að rannsaka.