11.09.1917
Neðri deild: 57. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2185 í B-deild Alþingistíðinda. (2273)

171. mál, verð á landssjóðsvöru

Frsm. (Einar Arnórsson):

Eins og kunnugt er kom í vetur fram þingsályktunartill. svipuð þessari, sem nú er fram komin. Nefndin, sem fjekk þá till. til umsagnar, komst að svipaðri niðurstöðu og bjargráðanefnd hefir nú komist að. Til miðlunar var sú klausa sett í 2. gr. laga nr. 5, 1. febr. 1917, að stjórninni skyldi heimilt að heita þeim, sem búa utan Reykjavíkur, sanngjarnri ívilnun eða uppbót á kostnaði við að senda vöruna milli hafna eða staða umhverfis landið. Menn fundu, að það mundi erfitt að jafna flutningskostnaðinum svo niður, að það yrði ekki annar ójöfnuður til. Stjórnin hefir ekki heldur sjeð sjer fært að nota heimildina að nokkru ráði, og því mun þingsályktunartill. komin fram. Með leyfi hæstv. forseta skal jeg lesa upp kafla úr skýrslu, sem stjórnin hefir sent forseta Sþ. Þar víkur stjórnin að þessu máli. Kaflinn hljóðar svo:

»Verðlagið á vörum þeim, sem landsstjórnin hefir flutt inn, hefir verið ákveðið eftir því, sem þær hafa kostað landssjóð hingað komnar, með hæfilegri viðbót fyrir fyrirsjáanlegum áfallandi kostnaði, vöxtum og rýrnun, og með tilliti til þess verðs, sem var á forða þeim, sem þá lá fyrir, og hve mikill hann var, þannig, að sama verð sje á hverjum tíma á sömu vörutegund, án tillits til þess, þótt sú vörutegund hafi komið með fleiri skipum, og virðist þetta vera eðlilegast fyrirkomulag og eftir atvikum hið eina framkvæmanlega. Á síðasta Alþingi kom það til tals, hvort ekki væri auðið að hafa sama verð um alt land á vörum þeim, sem landssjóður selur, en landsstjórnin var látin hafa fríar hendur í þessu efni. Það er mjög torvelt að koma því við að leggja flutningskostnað út um land á, þegar vöruverðið er þegar ákveðið, og verður ekki heldur rjettlátt, því að ógerlegt er að bæta þeim flutningskostnað, sem flytja verða að sjer vörurnar á landi, sem þeir þó ættu heimting á, í samanburði við hina, sem vörurnar fengju fluttar til sín á sjó, með flutningskostnaði í vöruverðinu, sem báðir greiða, en að hafa tvennskonar vöruverð, eftir því, hver kaupandi er, er óframkvæmanlegt. Annað órjettlæti myndi og stafa af því, sem sje, að landssjóðsvörurnar verða hjer og í verslunarupplandi bæjarins dýrari en samskonar vörur, sem aðrir flytja hingað inn og selja hjer. Að koma jöfnuði á verðið með því móti að láta aðflutningsskipin leggja vörurnar upp á ýmsum stöðum á landinu, er venjulega enn ómögulegra peningalega sjeð, því að aðflutningsskipin eru ofkostnaðarsöm til að láta þau eyða tíma í siglingar með ströndum fram hálffull eða nærri tóm. Að vísu hefir landsstjórnin getað komið því við að hafa sama verð á sykri um alt land, en það stafar af því, að hún í raun og veru hefir nú einkasölu á sykri, því að aðrir flytja nú sykur svo að segja ekki til landsins, og svo er fyrirfram hægt að ákveða, hve mikið af birgðum, sem verðleggja þarf, verður látið fara á hvern stað á landinu, og greiða innanlandsflutning fyrir, þar sem sykurinn er skamtaður af landsstjórninni«.

Svo mörg voru þau orð. Það er að vísu ekki vegna þessarar greinargerðar landsstjórnarinnar, að álit bjargráðanefndar er eins og það er, heldur vegna þess, að nefndin er á sama máli og landsstjórnin.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) lýsti nál. fyrir mönnum, og er óþarfi að endurtaka það. Nefndin hefir dregið mótbárur sínar saman í 4 atriði. Ætti það að vera ljóst af nál., að þessi jöfnuður, sem þingsályktunartill. ræðir um, yrði í raun og veru ójöfnuður. Hag landssjóðs væri líka mjög illa borgið, ef þetta kæmist á, því að ókleift er að vita, þegar farmur kemur til landsins, hve mikið af honum verði sent út um land og hve mikið á hvern stað.

Vorið 1916 voru t. d. harðindi á Norðurlandi og útlit fyrir, að fellir yrði, ef eigi kæmi skjót hjálp hjeðan að sunnan. Þá voru send um 500 tonn af landssjóðsvörum norður, til þess að vera við öllu búið. Er það augljóst, að enginn gat sjeð þetta fyrir. Ef svo væri, að landsstjórnin hefði ein á hendi sölu á ákveðnum vörutegundum, eins og hún hefir að miklu leyti haft á sykri, þá væri hægra um vik; hún vissi nokkurn veginn, hve mikið mundi þurfa að senda á hvern stað, og þá mun hægara að reikna út fyrirfram, hvað þarf að leggja á alla vöruna vegna flutningsgjaldsins. En hingað til hefir stjórnin, eins og rjett er, unnið í samfjelagi við kaupmenn og kaupfjelög að því að birgja landið upp að vörum, því að aðalatriðið nú, meðan stríðið stendur yfir, er að ná vörunum inn í landið, og mest líkindi eru til þess, að það vinnist best á þann veg, að þar vinni í sameining landsstjórn, kaupmenn og kaupfjelög.

Ef landssjóður ætti að borga alt flutningsgjald út um land, þá mundi hann, eins og fyrirkomulag á vöruflutningum til landsins nú er, hafa vaðið fyrir neðan sig, svo að hann væri viss um að ná upp sínum kostnaði, og gæti þá vöruverðið á sumum tímum orðið óþarflega hátt.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) virtist að mörgu leyti fallast á niðurstöðu nefndarinnar í máli þessu, enda er brtt. á þgskj. 868 bestur vottur um, að sumir hv. flutningsmenn till. á þgskj. 590 eru farnir að sansast á, að fyrirkomulag það, er hún fer fram á, muni ekki sem heppilegast. Höfuðtillöguna flytur fullur helmingur deildarmanna, þegar frá er talinn forsætisráðherrann, sem, eins og eðlilegt er, greiðir ekki atkvæði um tillögur, sem beint er til stjórnarinnar, svo að þess vegna geta þeir komið henni fram án breytinga, en af því að hjer eiga sanngjarnir menn í hlut, þá vilja þeir eigi nota afl sitt til að berja mál sitt fram, heldur vilja sveigja til, þar sem sanngirni mælir með, og eiga þeir þakkir skilið fyrir.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) vildi ekki mótmæla því, að ef tillagan fengi framgang, gæti það leitt til þess, að verð hækkaði hjá sumum kaupmönnum. En hann vildi halda því fram, að það yrði ekki þjóðarskaði, því að þótt vöruverð kaupmanna hækkaði á einum staðnum við þetta, þá mundi það aftur lækka á öðrum. Það má vera, að alment tekið yrði það ekki til að minka þjóðareignina; en þó mun það standa í háttv. þm. (Sv. Ó.), eigi síður en öðrum, að reikna þetta sem hvert annað einfalt reikningsdæmi; þar kemur svo margt inn í reikninginn, sem ekki er hægt að einskorða með almennum setningum. Fyrir mjer er aðalatriðið: Er líklegt, að aðdrættir til landsins aukist eða minki við þær ráðstafanir, sem tillagan vill að gerðar sjeu, og er það rjett að gera kaupmönnum og kaupfjelögum erfiðara fyrir sumstaðar í landinu en annarstaðar? Meiri hluti nefndarinnar hefir svarað þessu hvorttveggja í nefndaráliti sínu, og þarf ekki að taka það upp aftur hjer.

Þá segir háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó ), að eigi sje það erfitt fyrir landsstjórnina að reikna út, hvaða verð hún þurfi að leggja á vöruna. Það sje ekki torveldara fyrir hana en fyrir kaupmenn, sem verslun reki á fleiri stöðum. Þetta er ekki fullrjett, því að kaupmenn þessir vita fyrirfram, á hvaða staði þeir þurfa að flytja vörur, og líka nokkurn veginn, hve mikið þeir muni þurfa að flytja á hvern stað; þeim eru og engar hömlur settar, svo að þeir geta hagað vöruflutningunum mjög að eigin vild. Landsstjórnin stendur hjer öðruvísi að vígi. Hún getur ekki vitað, hve mikið muni þurfa að fara á hvern stað, nema ef vera skyldi af vörum, sem hún ræki ein verslun með, og skamtaði hana, eins og hún gerði um tíma með sykurinn.

Hitt skil jeg vel, hvers vegna tillaga þessi hefir komið fram. Það hefir komið í ljós óánægja út af flutningsgjaldi á ákveðnum vörutegundum á ákveðnar hafnir, og það þótt koma órjettlátlega niður; en hvort þær ráðstafanir hafa verið af völdum stjórnarinnar eða starfsmanna hennar, um það veit jeg ekki. En þótt einhver mistök komi fyrir, þá má ekki fyrir þá sök rígbinda stjórnina við allsherjarreglur, sem henni er ómögulegt að framkvæma og óhentugar eru að öðru leyti, heldur verður að treysta henni til þess, að hún muni sjá til þess, að farmgjöldum sje jafnað rjettlátlega niður. Þó má ekki skilja orð mín svo, að eigi færi best á því, að rjettlátur reikningsjöfnuður gæti verið allra á milli á öllum farmgjöldum; en nefndin fær ekki sjeð, að hægt sje að koma því við, og því hefir hún ekki getað aðhyllst þingsályktunartill., en heldur kosið að afgreiða málið með rökstuddri dagskrá.

Nefndin hefir athugað brtt. á þgskj. 868, og meiri hluti hennar komist að þeirri niðurstöðu, að hún færi í svo líka átt sem aðaltillagan, að hún gæti ekki fallist á hana. Þar eru sömu annmarkarnir á sem aðaltillögunni, og í sumum atriðum er hún enn verri.

Nefndin hefir ekki haft tækifæri til að bera sig rækilega saman við stjórnina um mál þetta; en hæstv. atvinnumálaráðherra er hjer viðstaddur og mun geta skýrt hv. deild frá afstöðu stjórnarinnar. Jeg las áðan upp kafla úr greinargerð stjórnarinnar um mál þetta, og býst við, að hún muni vera líkrar skoðunar enn, en hafi hún fundið einhverja nýja útvegu síðan, þá hefir nefndin að sjálfsögðu ekki á móti, að þær leiðir sjeu farnar, ef þær eru aðgengilegar.