14.09.1917
Efri deild: 57. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2214 í B-deild Alþingistíðinda. (2286)

171. mál, verð á landssjóðsvöru

Eggert Pálsson:

Jeg get viðurkent það, að brtt. á þgskj. 941 sje til bóta frá aðaltillögunni, á þgskj. 898. En hins vegar verð jeg að telja báðar tillögurnar nokkuð viðsjárverðar. Mjer dylst ekki, að hvor tillagan sem yrði samþykt þá mundi það leiða til þess, að vörur hækkuðu tilfinnanlega mikið í verði. Tilætlunin með till. mun vera sú, að flutningskostnaður leggist á vöruna. Hugsanleg væri nú sú leið að láta beinlínis landssjóð kosta flutninginn. En þetta fyrirkomulag, sem hjer er stungið upp á verður til þess, að vörur hækka afskaplega í verði, sjerstaklega hjer á Suðurlandi, þar sem gera má ráð fyrir, að aðflutningarnir frá Ameríku lendi hjer í Reykjavík, eins og verið hefir. Er skiljanlegt, að með þessu yrði lagður tilfinnanlegur skattur á þann hluta landsins, Suðurlandsundirlendið, til hagnaðar öðrum landshlutum. En meira er þó vert um hitt atriðið, að með þessu er hætt við, að óeðlilegur gróði renni í vasa kaupmanna hjer í Reykjavík úr höndum almennings, bæði hjer og í grend.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) sagði, að þessi óeðlilegi gróði mundi lenda í vasa kaupmanna úti um landið, ef fyrst væri flutt til Reykjavíkur og síðar út um landið. Þetta væri alveg rjett hugsað, ef kaupmenn ættu jafngreiðan aðgang um land alt að vörum frá öðrum löndum eins og kaupmenn hjer. En nú er verslunarfyrirkomulaginu einu sinni svo háttað, að skip ganga aðallega milli Ameríku og Reykjavíkur. Það er því skiljanlegt, að kaupmenn í Reykjavík hljóta að eiga miklu greiðari aðgang að vörum beint frá öðrum löndum, sjerstaklega Ameríku, en aðrir kaupmenn úti um landið, og mundu þeir auðvitað nota sjer það, ef landsverslunin setti upp sínar vörur hjer, að gera það þá líka, og við það mundu þeir fá óeðlilegan gróða í sinn vasa. Með þessu yrði því lagt inn á sjerlega hættulega braut.

Jeg finn svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um tillögurnar, en læt mjer nægja að mótmæla þeim báðum eins kröftuglega og mjer er unt, sem sje ekki eingöngu í orði, heldur einnig í verki, þ. e. með atkvæði mínu.