15.09.1917
Sameinað þing: 7. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2226 í B-deild Alþingistíðinda. (2302)

171. mál, verð á landssjóðsvöru

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg verð að segja enn eins og áður, að það eru mjög miklir örðugleikar á því að framkvæma þetta, sem farið er fram á í till., þótt þessi till. sje dálítið aðgengilegri en þegar hún fór frá háttv. Nd. Jeg er hræddur um, að ef þessi till. er brotin til mergjar, þá muni menn fljótt sjá, að það skapast enn mikið misrjetti þrátt fyrir þetta. En jeg býst ekki við, að það þýði neitt að stríða við þetta; deildirnar hafa auðsjáanlega komið sjer saman um, að þetta eigi að heimta, og þá verður stjórnin að reyna að framkvæma það eins vel og mögulegt er, en jeg tel það samt sem áður óheppilegt að binda þannig hendur stjórnarinnar, og altaf verður þetta hreint handahóf, þegar menn vita ekkert fyrirfram um það, hve mikið þurfi að senda út um landið, þegar það, sem sendist »eftir pöntun«, sennilega kemur fram þegar þörfin fyrir það kemur.

Við skulum hugsa okkur, að vörurnar sjeu fluttar hjeðan og norður á Akureyri; þá legst sá flutningskostnaður á þær, og þar við bætist t. d. flutningskostnaður til Sauðárkróks, og þó á að selja þær sama verði og hjer í Reykjavík, þar sem enginn aukakostnaður er. Þetta yrði alveg óútreiknanleg hækkun á verðinu, og auk þess yrði mikið missætti milli kauptúna í sama sýslufjelaginu. En annars ætla jeg ekki að orðlengja um málið. Geri ráð fyrir, að það verði þýðingarlítið.