28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2260 í B-deild Alþingistíðinda. (2362)

168. mál, fjallgöngur og réttir

Einar Jónsson:

Jeg er í talsverðum efa um, hvort jeg eigi að greiða atkvæði með þessari tillögu eða ekki. Það er nú orðið svo áliðið sumars, að fjarlægar sveitir, sem þurfa að koma sjer saman um smölun á afrjetti, hafa varla tíma til að tala sig saman um það, ef breyting á að verða á leitartíma. Það er víða, sem menn verða að mætast á afrjettinum og geta því ekki komist hjá að tala sig nákvæmlega saman um, hve nær leitin skuli hafin. Jeg get nefnt til dæmis, að úr Rangárvallasýslu eiga menn að leita inn á öræfi og mæta þar Norðlendingum. Það má því ekki bregðast, að þeir sjeu komnir þangað á ákveðnum tíma. Það er alveg rjett hjá háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) að frestunin kemur ekki að neinu gagni nema tíðin verði góð. Ef rigningar verða, verður ekkert úr heyskap. En ef rigningar ganga í sveitum, þá geta oft verið fjárskaðabyljir á fjöllum, eftir að sá tími er kominn. Það gæti þá orðið stórskaðlegt að fresta leitunum. Sökum þess þá, að nú er orðið svo áliðið, að vafasamt er, hvort hægt er að koma þessari breytingu á, og auk þess má teljast mjög hæpið að fara nú að breyta gamalli venju um þetta efni, enda gæti fjenaður orðið í mikilli hættu á fjöllum, ef úr þessari frestun yrði, þá tel jeg hyggilegra að samþykkja ekki tillöguna. Jeg mun því greiða atkvæði á móti henni. Jeg hygg, að þetta sjeu aðalástæðurnar, sem þarf að taka fram í þessu máli, en ef til vill mætti benda á fleiri.