15.09.1917
Sameinað þing: 7. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2288 í B-deild Alþingistíðinda. (2392)

191. mál, milliþinganefnd til að íhuga fossamál landsins

Sigurður Stefánsson:

Það er eins um þetta mál og mörg önnur hjer í þinginu, að jeg hefi ekki getað fylgst með gangi þess. En jeg vildi segja nokkur orð í sambandi við ræður hv. þingmanna, sem talað hafa um málið og nefndarálitið.

Jeg tek fúslega undir með þeim þingmönnum, sem vilja ekki rasa að þessu máli, heldur undirbúa það vel og ræða það og athuga frá öllum hliðum. Því að mjer er vel ljóst, að hjer er um stórmerkilegt mál að ræða.

Nefndin hefir komist að þeirri niðurstöðu, að þingið skipi nefnd til þess að rannsaka málið. Til þeirrar nefndar verður að vanda vel, ef á annað borð á að tryggja það, að hún ráði máli þessu vel til lykta. En mjer hefir skilist, að þessi trygging mundi ekki fást fyrir það, þó að stjórninni sje heimilað að velja tvo nefndarmanna, þar sem jafnframt er gert ráð fyrir, að þingflokkarnir velji 3 menn í nefndina, einn úr hverjum flokki. Það álít jeg allsendis óviðeigandi. Jeg lít svo á, að þetta mál eigi að vera hafið yfir alla flokka og pólitískar klíkur. Það á ekki að vera pólitískt bitbein handa einstökum þingmönnum. Og eftir þekkingu minni á háttv. þingmönnum þá verð jeg að segja það, án þess að jeg þykist álasa nokkrum þingmanni, að jeg finn ekki þá menn í þinginu, sem jeg treysti til að leysa þetta mikilvæga starf eins vel af hendi og stjórnin mundi gera, ef hún hefði óbundnar hendur, og gæti því skipað nefndina þeim mönnum, sem hún teldi færasta, án alls tillits til þess, í hverjum flokki þeir eru.

Vjer megum ekki binda þetta mál við pólitíska flokkaskiftingu. Oss ríður á að líta út fyrir allan flokkaríg, sem oft byrgir heilbrigða útsjón fyrir sumum þingmönnum. Þessi tilnefning þingflokkanna í nefndina er í raun og veru hrein og bein vantraustsyfirlýsing til stjórnarinnar; flokkarnir trúa henni ekki til að skipa nefndina. Jeg trúi stjórninni miklu betur til að fara með málið heldur en pólitískum flokkum, sem oft hugsa meira um það að útvega mönnum sínum pólitíska bitlinga, en minna um raunverulega hæfileika þeirra til að gegna þeim störfum, sem þeim eru á hendur falin. Þar sem stjórnin er valin af öllum flokkum þingsins, þá ættu flokkarnir að geta treyst henni til að leysa mál þetta svo af hendi, að vel mætti sæma.

Umfram alt ríður oss hjer á færum mönnum, ekki pólitískum æsingamönnum, heldur mönnum, sem hafa sjerþekkingu á sem flestum atriðum þessa máls. Jeg fæ ekki sjeð, að milliþinganefndirnar hafi verið neitt betur skipaðar síðan þingið fór að tilnefna menn í þær heldur en á meðan það fal stjórninni það að öllu leyti. Eftir því sem nefndarálitið er orðað, sje jeg að vísu ekki, að stjórnin sje í nokkru bundin við tillögur þingsins um útnefningu á mönnum í nefndina. Það kom að eins fram í ræðu háttv. framsm. (M. T.), sem að þessu leyti kemur því í bága við nefndarálitið.

Jeg býst nú ekki við, að þessi orð mín breyti neitt ákvörðunum flokksforingjanna hjer á þingi, en jeg vil þó láta þau sjást í þingtíðindunum. Segi jeg þetta ekki fyrir munn neins flokks, heldur sem mína persónulegu skoðun á málinu, án tillits til hagsmuna eða skoðana þingflokkanna.