23.08.1917
Neðri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Framsm. fjárveitinganefndar (Magnús Pjetursson):

Jeg skal reyna að vera stuttorður og ekki tefja tímann mjög lengi. — Jeg hefi heyrt talað um það, bæði utan þings og innan, að mönnum hafi þótt fjárlögin koma óvanalega seint frá nefnd, og er það að vísu svo, en til þess liggja ýmsar orsakir. Jeg vil benda mönnum á, að munurinn er ekki svo mikill frá því sem áður hefir verið, því að 1915 komu fjárlögin 20. ágúst til 2. umr. í Nd. Það munar því ekki nema 3 dögum frá því sem nú er, en þó ber að geta þess, að þingið 1915 byrjaði ekki fyr en 7. júlí, Það eru ýmsar eðlilegar orsakir, sem liggja til þess, að þau koma ekki fyr nú, og þá fyrst og fremst það, að fjáraukalögin nú voru miklu umfangsmeiri en áður hefir verið og kröfðust því meira starfs. Og annað er það, að samkvæmt nýju þingsköpunum verður að leggja allar tillögur og öll frv., sem fara fram á aukin útgjöld úr landssjóði og fram koma á þinginu, fyrir fjárveitinganefnd, og hún að taka það til yfirvegunar og láta í ljós álit sitt.

Eins og allir hljóta að sjá hefir þetta tafið mikið, og tel jeg vafasamt, hvort þetta ákvæði í þingsköpunum er heppilegt. Aftur á móti hefir fjárhagsnefnd nú tekið tekjuhlið fjárlaganna, sem ekki hefir áður verið.

Til að sýna mönnum fram á, að nefndin hefir unnið ósleitilega, vil jeg geta þess, að hún hefir haldið jafnmarga fundi um sjálf fjárlögin eins og nefndin 1915, sem sje 34, en auk þess 9 fundi um annað. Af þessu vona jeg að sje auðsætt, að vinnubrögðin hafi verið í góðu lagi. Það hafa heyrst þau ummæli hjá sumum háttv. þm., og jafnvel hjá hæstv. stjórn líka, að nefndin hafi nú gengið lengra frá sparnaðarstefnunni en áður, og jafnvel lengra en búast hefði mátt við. Það mætti því ætla, að full ástæða væri til fyrir nefndina að sýna fram á að það gæti engum komið á óvart, þótt tekjuhalli yrði nú, og að nefndin hefði ekki átt annars úrkostar en að auka útgjöldin töluvert. Það er að vísu sjálfsagður hlutur að spara eftir megni, en það er meiningarlaust að láta sparnaðinn koma niður á því, sem engan veginn er mögulegt að spara.

Sjálfsagt mun menn greina á við nefndina um ýmsar einstakar breytingartill., en fjöldinn af þeim breytingartillögum, sem mest útgjöldin hafa í för með sjer, eru þess eðlis, að öllum hlýtur að koma saman um, að hjá þeim varð ekki komist.

Jeg vil svo leyfa mjer að nefna hjer nokkur dæmi upp á þessar sjálfsögðu brtt., sem allir hljóta að vera á einu máli um, að sjeu nauðsynlegar.

Þá er fyrst brtt. við 10. gr., sem fer fram á, að hækkaður verði þingkostnaður um 80 þús. kr. Stjórnin hafði áætlað hann að eins 80 þús. kr., en eins og sakir standa nú verður það altof lágt áætlað. Má benda á það, að nú er þegar sýnt, að alþingiskostnaðurinn 1917 verður minst 180 þús. kr.

Það mun því síst vera oflangt farið hjá nefndinni, þegar þess er gætt, að líkur eru enn fremur fyrir því, að annað þing verði haldið á fjárhagstímabilinu, heldur en hið reglulega þing 1919. Hjer eru þá strax komnar 80 þús. kr., sem verða að teljast óhjákvæmileg útgjöld.

Þá kem jeg næst að alveg nýjum lið, sem við höfum bætt inn í fjárlögin, en það er kostnaður við fasteignamat, 30 þús. kr. Sömuleiðis verður að telja þetta óhjákvæmileg útgjöld, af þeirri ástæðu, að fasteignamatið er lögboðið.

Nú kunna einhverjir að segja, að óþarft hefði verið að setja þetta í fjárlögin, þar sem sjerstök lög eru fyrir því. En nefndin lítur svo á, að rjettast sje að setja öll þess konar útgjöld inn í fjárlögin, til þess að gefa mönnum betra heildaryfirlit. Jeg skal geta þess, að upphæð sú, sem hjer er nefnd, er að eins laus áætlunarupphæð, vegna þess, að nefndin hafði mjög lítið til að byggja á. Vantaði alveg reikninga úr 6 sýslum, en nokkuð af reikningum komið úr hinum sýslunum, og námu þeir um 31 þús. kr.

Áður en jeg fer lengra út í þær stærri fjárhæðir ætla jeg að minnast á það, sem háttv. þm. sjálfsagt kannast við, að stjórnin hafði gert ráð fyrir 6242 kr. tekjuafgangi.

Þessi tekjuafgangur er ekki rjettur, af þeim ástæðum, að fyrst og fremst er, eins og hæstv. fjármálaráðherra skýrði frá, prentvilla í styrknum til sjúkrahúsa, eða öllu heldur ritvilla, og nemur hún 4 þús. kr. yfir fjárhagstímabilið. Þá er enn fremur reikningsskekkja í fæðiskostnaði Heilsuhælisins, og nemur hún um 2000 kr. yfir fjárhagstímabilið.

Þá má líka geta þess, að í 8. gr. II. hefir sjest yfir að telja með »provision« af lánum, sem hæstv. fjármálaráðherra segir, að nemi 232 kr. 79 aurum. Nefndin mun koma með brtt. um þetta síðar, en gat það ekki nú, af því að hún hafði ekki nægar upplýsingar. Þegar þetta er tínt til, þá fer nú að standa í járnum með tekjur og gjöld. Jeg skal svo halda áfram þar sem jeg slepti áðan og kem þá að þeim liðum í 12. gr., sem snerta spítalana. Jeg trúi ekki öðru en að menn sjeu nefndinni sammála um, að hjer sje um óhjákvæmilegar upphæðir að ræða. Fjárveitingar þær, sem stjórnin hefir áætlað, eru bersýnilega altof lágar, og nefndin hefir því að eins hækkað þær, að hún sjer, hvað það er fjarri öllum sanni að búast við því, að spítalarnir geti starfað og verið reknir fyrir minna fje en nefndin ráðgerir. Engum mun nefnilega koma til hugar, að þessum stofnunum verði lokað eða að hægt sje að spara við þær mat eða hita.

Þá kemur hækkun á bólusetningarfje, sem er í samræmi við það, sem landsreikningarnir sýna að þarf fram yfir það, sem áætlað var.

Næst er nokkuð stór upphæð, sem nefndinni hefir þótt sjálfsagt að taka upp, enda er það samkvæmt till. stjórnarinnar. En það er 40 þús. kr. til byggingar yfir listasafn Einars Jónssonar. Þessi upphæð er þó að eins flutt frá fjáraukalögum, var tekin út þaðan í því skyni, að hún væri tekin inn í fjárlögin.

Þá er enn ein brtt., sem nefndin telur sjálfsagða, nefnilega 3,500 kr. til bókavarðar Sigfúsar Blöndals. Fyrri hluta þessarar fjárveitingar, 2500 kr., hefir þingið þegar samþykt í fjáraukalögum, og er þetta því í samræmi við það, sem þingið hlýtur að hafa ætlast til. Þarna eru þá komnar brtt., sem samtals nema 272 þús. kr. Og jeg hygg, að allir sjái, að nefndina hafi borið skylda til að taka þær í fjárlögin. Auk þess eru ýmsar fleiri till., sem jeg ætla að nefna, sem nefndin telur sjálfsagðar, þótt þær sjeu ef til vill ekki eins bersýnilega sjálfsagðar og þær, sem jeg nú hefi talið.

Það hefir áður verið talið sjálfsagt, ef fje hefir verið veitt til verklegra framkvæmda og svo af einhverjum ástæðum ekki notað á því fjárhagstímabili, að það yrði endurveitt. Brtt. nefndarinnar, sem fara fram á slíkar endurveitingar, eru um 27 þús. kr. Þá má geta þess í þessu sambandi, að það verða að teljast nauðsynlegar brtt., sem nefndin hefir gert við ýmsa vegakafla. Þær eiga ekki að miða til annars en að koma því til leiðar, að jafnmikið verði framkvæmt af þeim eins og til hefir verið ætlast, svo að eigi verði á þeim bein afturför, heldur reynt að halda í horfinu. Hækkunin á liðum þeim er að eins til að vinna upp kauphækkun. Jeg skal geta þess, að nefndin hefir þó aldrei farið eins hátt og ætla mætti að þyrfti til þess, að jafnmikið fengist framkvæmt og áður á ári. Þær hækkanir, er að þessu lúta, nema um 35000 kr. Þá eru af þessum brtt. alls komnar 332 þús. kr.

Það mætti ef til vill nefna fleiri dæmi, þar sem það virtist siðferðisleg skylda þingsins að leggja fram fje, eins og til dæmis Skeiðaáveituna. Eftir að búið er að samþykkja Flóaáveituna er sjálfsagt, samræmisins vegna, að láta hið sama ganga yfir Skeiðaáveituna, ekki síst er hjeraðsbúar hafa sjálfir ótrauðir riðið á vaðið. Í sambandi við það vill nefndin láta kaupa stórt verkfæri, skurðgröfu, sem er undirstaða og hjálp við þessi áveitufyrirtæki, til þess að þau verði framkvæmanlegri. Þær upphæðir verða til samans 51 þúsund kr. Þarna eru komnar 383 þúsund kr. Ef bætt er nú við smærri brtt., sem beinlínis eru afleiðing af dýrtíðinni, þá er ekki ofmikið sagt, að brtt. nefndarinnar, er nema 400 þús. kr., sje alveg óhjákvæmileg nauðsyn, og jeg býst við, að háttv. Alþingi hefði þótt það hart, ef nefndin hefði gengið fram hjá einhverju af því. Skal jeg svo ekki fara frekar út í þetta, en hef bent háttv. deild á þetta, til þess að ekki væri hægt að bera nefndinni á brýn óþarfa eyðslusemi í stærstu atriðunum. Annars mun það koma fram við umræðurnar, hvernig nefndinni tekst að færa rök fyrir sínu máli um aðrar brtt. en þegar eru nefndar.

Jeg held, að nú sje ekki þörf í svip að tala fleira alment um brtt. nefndarinnar, en skal nú koma að einstökum brtt. Jeg skal vera stuttorður, því að jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. hafi lesið nál. Þar er gerð grein fyrir þeim öllum, og skal jeg því að eins drepa á það, er mjer finst vanta til skýringar sjerstaklega.

Eins og sjest á nál. hefir hagstofustjórinn haldið því fram, að rjett væri og sanngjarnt, að hans staða væri gerð jafnrjetthá stöðu skrifstofustjóra stjórnarráðsins, sem sje embætti með eftirlaunarjetti o. s. frv. Nefndin lítur svo á, sem þessi röksemdafærsla hans hafi við nokkur rök að styðjast, og þar sem hún álítur manninn alls góðs maklegan, vill hún hækka laun hans, svo að þau verði eins og laun skrifstofustjóranna, án þess þó að ákveða honum eftirlaun.

Þá er brtt. við 10. gr., sem fer fram á að hækka laun yfirskoðunarmanna landsreikninganna. Nefndinni fanst nærri ósæmilegt að láta þessa menn sæta sömu kjörum og hingað til, borga þeim einar 600 kr. á ári. Starf þeirra er mikið, og fer sívaxandi, ekki síst síðan landsverslunin kom til sögunnar. Fanst henni sjálfsagt að bera fram þá brtt., að þeir fengi 1000 kr. á ári, og getur þó orkað tvímælis, hvort það er sómasamleg borgun.

Um 13. brtt., við 12. gr., um starfrækslu Röntgenstofnunarinnar, er það að segja, að þar er um flutning að ræða frá 14. gr. En jeg vil geta þess, að útlit er fyrir, að starfræksla hennar verði dýrari á næstunni, því að nefndinni er skýrt svo frá, að »Völundur« verði að hætta að láta henni rafmagn í tje. Verður þá stofnunin annaðhvort að fá rafmagnið leitt annarsstaðar frá, eða flytja í þann stað, þar sem helst mun rafmagn að fá, stórhýsi þeirra Nathans & Olsens, en þar er húsaleiga miklu hærri en stofnunin hefir áður þurft að gjalda. Má því búast við, að nefndin flytji brtt. við þennan lið við 3. umr.

Jeg drap á spítalana. Öllum kemur saman um, að ekki megi loka þeim. Þá er fyrst um viðurværi sjúklinganna. Nefndinni fanst ekki hægt að gera ráð fyrir minni fæðiskostnaði en samkvæmt brtt. hennar, og er meira að segja sannfærð um, að þessi upphæð dugir ekki, eins og verðlag er nú, en vonar, að síðara árið verði svo hagstætt, að það jafni sig. Um áætlunina á fæðiskostnaði á Vífilsstöðum skal jeg geta þess, að þótt á hinum tveimur spítölunum væri hægt að halda eitthvað sparlega á, vegna dýrtíðarinnar, þá er það ekki hægt á Vífilsstöðum. Þar má ekki spara mat. Þar er það lífsskilyrði, að engin matartegund sje spöruð. Um eldsneytið er það að segja, að brtt. nefndarinnar eru ekki miðaðar við núgildandi verðlag, heldur við það kolaverð, að hver smálest kosti 100 kr. Eins og menn sjá er ekki hátt farið, og engin von til, að ástandið geti jafnast svo, að þetta nægi, hvað þá heldur það, sem stjórnin áætlaði.

Um 18. brtt., við 12. gr., tölulið 11, um landsspítalann, skal jeg geta þess, að eins og háttv. þingdm. muna er hjer á ferðinni þingsál.till. um þetta atriði. Með því að sú till. er ekki útrædd og nefndin hefir ekki krufið málið til mergjar, leyfir nefndin sjer að taka þá till. aftur, en mun ef til vill koma með brtt. við 3. umr., eftir því sem henni kemur saman um.

Þá er 26. brtt., sem er alveg nýr liður, og er um kostnað við heilbrigðiseftirlit lækna með alþýðuskólum. Um það er ítarlega ritað í nál., og vil jeg benda háttv. þm. á að lesa það, af því að hjer er um nýjan lið að ræða. Þetta er sjerstaklega nýtt atriði og áríðandi að kynna sjer það, því að talsvert umtal hefir orðið um þetta úti um land.

Þá kemur brtt., sem er orðabreyting á aths. um styrk til lækninga á hörundsberklum. Skal jeg geta þess, til skýringar nál., að nefndin leit svo á, að þegar um mjög fátækt fólk væri að ræða, væri ekki hægt að krefjast þess, að það legði eins mikið fram og farið er fram á í frv. stjórnarinnar. Það gæti meira að segja komið til mála, að landssjóður legði allan styrkinn fram, og nefndin vill því ekki hafa það skilyrði, að sjúklingarnir sjálfir leggi altaf til ? kostnaðar. Þess ber að gæta, að þess er enginn kostur að fá lækningu á þessum sjúkdómi hjer á landi, og landinu því skylt að hjálpa.

Eins og menn sjá gríp jeg niður hjer og þar, til þess að tefja ekki tímann. Þá eru ekki fleiri brtt. við 12. gr. og þá kemur 13. gr. A., um póstmálin. Nefndin hefir, í stuttu máli, haldið sjer við till. póstmeistara, nema í tveim atriðum. Í öðru hefir hún farið dálítið hærra, sem sje til launa póstafgreiðslumanna utan Reykjavíkur, en í hinu dálítið lægra, sem er skrifstofukostnaður á stærri póstafgreiðslum utan Reykjavíkur. Þar eru dregnar 1400 kr. á ári frá því, sem póstmeistari lagði til. Nefndin taldi líkur til, að þar yrðu ekki eins mikil störf á næsta ári og því ekki þörf að veita eins mikið.

Þá eru 2 orðabreytingar, um ný nöfn á 2 embættismönnum. Önnur kom fram samkvæmt ósk vitamálastjóra, sem áður var nefndur umsjónarmaður vitanna Það þótti ekki nema rjett, að nafn hans segði til starfsins, sem er öll stjórn vitamála.

Lík breyting hefir verið gerð á nafni þess embættismanns, sem áður var nefndur »verkfræðingur landsins«, og hann nefndur vegamálastjóri, vegna þess, að það eru og hafa verið fleiri verkfræðingar í þjónustu landsins, en þessi eini hefir á hendi stjórn vegamálanna.

Þá er ferðakostnaður og fæðispeningar verkfræðings landsins, sem nefndin leggur til að hækka, fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að alt hefir hækkað og ferðalög eru dýrari en áður, og þótt honum sje borgað eftir reikningi, mætti líta svo á, ef þar stendur mjög lág upphæð, sem verið væri að letja verkfræðinginn þess að ferðast svo sem þörf krefur. Nefndin vildi sýna með brtt., að hún ætlast til, að hann ferðist eftir þörfum.

Þá skal jeg benda á 40. brtt., sem er nýr liður, um fjárveiting til að gera stein- og járnbrýr, í stað trjebrúa, á áður afhentum flutningabrautum. Nefndin hefir, síðan hún samdi brtt., fengið nýjar upplýsingar, svo að jeg á að lýsa yfir því, að það er ekki tilgangur hennar, að verkið sje borgað að öllu leyti úr landssjóði, heldur að ? hlutum, og mun hún koma með brtt. til 3. umr. Er þetta samkvæmt till. verkfræðings, enda hvílir engin lagaskylda á landssjóði til að inna þetta af hendi, heldur er það sanngirniskrafa, að hann taki þátt í kostnaðinum.

Þá hefir nefndin lagt til að hækka tillag til viðhalds flutningabrauta og þjóðvega, og er það skýrt í nál. Öll vinna er nú miklu dýrari en áður. En auk þess leggur nefndin áherslu á, að viðhaldið sje fullkomið. Það eru hyggindi, sem í hag koma, að veita nóg til þeirra hluta.

Þá er getið um það í nál., að Borgfirðingar fóru fram á, að landssjóður styrkti brú yfir Hvítá hjá Ferjukoti, og vegarkafla frá henni yfir á þjóðveginn og flutningabrautina, að ? hlutum. Eftir áætlun landsverfræðings á brúin að kosta 50 þús. kr. og vegarkaflinn 40 þús. kr. Landsverkfræðingur hefir lagt með því, að verkið sje unnið. En nefndin hefir ekki viljað fara svo langt, en vill, að landssjóður styrki þessa vegakafla á sama hátt og aðra akfæra sýsluvegi, að helmingi, en brúarbygginguna telur hún sanngjarnt að styrkja á sínum tíma að ? hlutum, bæði af því, hve brúin verður dýr, og því, ef litið er á, hve mikið fje sýslufjelagið hefir lagt í samgöngur. Það er ekki svo mikill skilsmunur, ef veitt verður eftir till. nefndarinnar og þess, sem Borgfirðingar fara fram á, því að ekki munar nema um 6000 kr. Þótt nefndin vilji ekki fara lengra, þá skal þess þó getið, eins og skylt er, að vegamálastjóri leggur til, að Alþingi verði að fullu við óskum hjeraðsbúa.

Í nál. er ekki minst á þær brtt., sem eru endurveitingar. Eins og jeg gat um áður eru þær nokkurn veginn sjálfsagðar. En jeg skal geta þess um endurveitingu til brúar á Hjeraðsvötnin, að af því, að nefndina vantaði upplýsingar, hefir fjárupphæðin orðið hærri en þörf er á. Það munu verða greiddar á þessu ári um 17000 kr., svo að 10000 kr. er áreiðanlega nóg, og mun nefndin koma með brtt. um það við næstu umr.

Þá er um steinsteypubrú á Hamarsá á Vatnsnesi. Jeg þykist vita, að hún muni ekki bygð fyr en efni fæst með sæmilegum kjörum og um hægist, en það er eðlilegast, að upphæðin standi í fjárlögunum, svo að hún verði notuð, er menn sjá sjer fært að leggja út í verkið.

Þá er brtt., ekki svo óveruleg, um athugasemdina við þennan greinarkafla. Nefndinni fanst ekki mega ganga svo frá fjárlögunum, þótt tekjurnar hrykkju ekki fyrir útgjöldunum, að fyrir það eitt væri frestað framkvæmdum í landinu. Það yrði til þess að eyðileggja atvinnu fyrir fjölda fólks. En það er brýn nauðsyn, að fólk hafi atvinnu, enda þótt tekjurnar hrökkvi ekki, enda er það þegar sýnilegt. Og þess verður einnig að gæta, að samkvæmt núgildandi fjárlögum var 1915 dregið svo mikið úr vegagerðum í landinu, að ekki má slíkt við gangast ár eftir ár.

Þá eru mjög litlar brtt. frá nefndinni við kaflann um símamál, og er skýrt frá þeim í nál., en jeg skal geta þess, að koma mun fram við 3. umr. allstór brtt., sem sje um loftskeytastöð í Flatey á Breiðafirði.

Eins og getið er um í athugasemdum stjórnarinnar hefir landssímastjórinn lagt það til, að á næstu árum verði bygðar 4 loftskeytastöðvar, en nefndin og landasímastjórinn líta svo á, að þessi stöð eigi að koma fyrst.

Jeg held þá ekki, að nauðsyn beri til að athuga fleiri brtt. Jeg skal geta þess, að jeg mun láta bíða að gera grein fyrir áliti nefndarinnar um till. samgöngumálanefndarinnar, þangað til sú nefnd hefir gert grein fyrir áliti sínu. Annars get jeg getið þess yfir höfuð, að nefndin er á móti flestöllum einstakra manna till. Annars er nefndin mjög vel sammála um þennan kafla, nema um brtt. samgöngumálanefndarinnar.