06.07.1917
Neðri deild: 4. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (2426)

20. mál, sala þjóðgarða, sala kirkjujarða

Björn Stefánsson:

Jeg bjóst ekki í upphafi við miklum umræðum um þetta mál þegar við 1. umr., en fyrst svo hefir teygst úr þeim, vil jeg ekki láta þess ógetið, að jeg hafði hugsað mjer að leggja fyrir þingið frv. um erfðafestuábúð á þjóðjörðunum. Aðalatriðið fyrir mjer hefir verið að finna leið til þess, að landið yrði ræktað, og því hefi jeg til skamms tíma verið fylgjandi þjóðjarðasölunni. En jeg hefi sjeð á síðari tímum, að lögin um sölu þjóðjarða ná ekki tilgangi sínum og tryggja ekki frambúðar-sjálfsábúð á jörðunum, því að jarðirnar ganga oft og einatt aftur úr sjálfsábúð, helst hjer í kringum Reykjavík og stærstu kaupstaðina. Þessi lög eru ekki gömul, og vel má því búast við, að það gangi lengra þegar fram líða stundir, að sjálfsábúð hverfi og „spekulantar“ nái jörðunum undir sig. Jeg býst því við, að erfðafestulög gætu orðið miklu tryggari en þjóðjarðasalan. Jeg ætla mjer að greiða atkvæði með þessu frv. til 2. umr. og flýta einnig fyrir mínu frv., svo að það einnig komist til nefndarinnar áður en hún skilar þessu máli frá sjer. En verði mitt frv. felt, mun jeg greiða atkvæði móti þessu frv., þótt jeg sje í heild sinni móti ríkjandi fyrirkomulagi. Jeg álít, að þjóðjarðasalan gefi enga tryggingu fyrir því, að niðjar núverandi landseta njóti þeirra jarðabóta, sem feður þeirra hafa unnið Með því fyrirkomulagi, sem nú ríkir, get jeg þó ekki verið, því að maður getur ekki búist við því, að efnalitlir menn verji arfi barna sinna til umbóta á ábúðarjörðum sínum þegar engin trygging er fyrir því, að þau njóti góðs af. Það verður að koma þessu máli í það horf, að landsetarnir finni sömu hvöt hjá sjer til að bæta jarðirnar, eins og þeir ættu þær sjálfir, því að fyrsta skilyrðið er og verður ræktun landsins.