01.08.1917
Neðri deild: 22. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í C-deild Alþingistíðinda. (2443)

20. mál, sala þjóðgarða, sala kirkjujarða

Fjármálaráðherra (B. K.):

Það virðast vera hjer á þingi mjög skiftar skoðanir um þetta mál. Já, meira að segja svo skiftar, að verði frv. felt nú hjer í deildinni, þá geri jeg ráð fyrir, að í hinni deildinni komi fram tillaga um sama mál, sem fari í mjög líka átt og þetta frv. Þegar fylginu er svona skift, þá tel jeg það alveg sjálfsagt, að stjórninni sje gefinn frestur til þess að íhuga málið frekar og láta í ljós tillögur sínar, ef hún gæti komið fram með einhverjar þær, sem allir gætu unað við. Þessi frestur, sem stjórnin fer fram á að fá, er ekki heldur svo langur, að ekki megi allir vel við una, hverja skoðun sem þeir annars hafa á þessu máli. Það verður væntanlega aukaþing á næsta ári, og virðist mjer einsætt að fresta sölunni að minsta kosti þangað til, því að ekki verður þó sagt, að 1 ár sje langur tími í allri landbúnaðarsögu landsins. Það hafa sumir, sem um þetta mál hafa talað, ekki lagt mikið upp úr lækkun peninga. Þetta er ekki rjett, því að einmitt á þessu byggist krafan um frestun á framkvæmd laganna.

En á hverju byggist nú krafan um að selja jarðirnar? Jeg held, að hún byggist á því, að ábúendurnir krefjast þess, að þeim líði vel, að þeir njóti vinnu sinnar og sje trygð ábúðin á jörðinni. Ef það væri hægt að koma þessu þannig fyrir, að öll þessi gæði væru trygð, án þess að jarðirnar yrðu seldar, þá trúi jeg varla, að nokkrum blandist hugur um, að það væri ólíku æskilegra. Og satt að segja þykir mjer mjög líklegt, að hægt sje að koma þessu svo fyrir, að allir verði ánægðir án þess að þeir fái jarðirnar keyptar.

En auk þess er það, að þjóðjarðasalan veitir enga tryggingu fyrir því, að jarðirnar haldist áfram í sjálfsábúð. Hún veitir heldur enga tryggingu fyrir því, að útlendingar kaupi ekki jarðirnar hópum saman. Þetta er ekki hægt að tryggja, ef nú þegar er haldið áfram að selja jarðirnar, og því er nauðsynlegt að hugsa sig vel um.

Nú veit enginn nema hallæri standi fyrir dyrum, en hitt vita allir, að Íslendingar eru ekki verulega þolgóðir, þegar slíkt ber að höndum. Það eru því öll líkindi til, að jörðum í sjálfsábúð mundi fækka ef hallæri yrði. Það er heldur engin von að menn sjeu þolgóðir því að það hefir nú langa lengi verið alment prjedikað fyrir mönnum, að ómögulegt sje að lifa á þessu landi sökum ófrelsis og að enginn eigi að hugsa um neitt nema munn og maga. Jeg veit það líka af eigin reynslu, síðan jeg varð bankastjóri, að margir hafa keypt ábýlisjarðir sínar sjer í óhag, því að þeir hafa orðið að rýra bústofninn til þess að borga af jörðinni. Þessum mönnum væri miklu betra að fá jörðina lánaða með góðum kjörum; fátækum mönnum væri miklu meiri styrkur að því fyrirkomulagi.

Af því að skoðanamunurinn er svona mikill, virðist mjer einsætt, að vjer eigum ekki að rasa fyrir ráð fram og fleygja burt þessum 80 jörðum, sem nú er búið að biðja um til kaups.