01.08.1917
Neðri deild: 22. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (2449)

20. mál, sala þjóðgarða, sala kirkjujarða

Matthías Ólafsson:

Jeg kann ekki við að greiða atkv. um þetta mál, án þess að hafa gert grein fyrir atkv. mínu. Mun jeg greiða atkv. með stj.frv. af þeirri ástæðu, að jeg vænti, að það verði til þess, að sölunni verði alveg hætt. Mín skoðun er, að þjóðjarðasalan sje óheppileg, og að því fyr sem hætt sje, því betra.

Hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) hefir haldið því fram, að ranglátt væri að hætta sölunni nú, með því að búið væri að selja svo mikið áður. En það er skrítin röksemd. Jeg álít það hið mesta ranglæti gagnvart þjóðfjelaginu, ef ekki væri hætt að gera vitleysu, þegar þingið sæi, að það væri vitleysa, einungis fyrir þá sök, að svo lengi hefir verið haldið áfram að gera vitleysuna. Það væri ekki heldur ranglátt gagnvart þeim, sem enn hafa ekki keypt, ef nú væri hætt að selja. Löggjöfin á að miða að því að gera menn sælli og öruggari í þjóðfjelaginu. Mundi þjóðjarðasala leiða beint til þess að gera menn sæla? Að því leyti gætu menn áreiðanlega verið jafnsælir sem ábúendur landssjóðsjarða, ef ábúðin væri gerð þeim svo hagfeld sem unt er. Það er búið að sýna, að sú aðferð er eins trygg til að halda sjálfsábúð, því að jarðir ábúenda hverfa aftur úr sjálfseign. Í sambandi við þetta má geta þess, að hjer hjá oss er því miður altof lítið af því, sem kallað er óðalsást. Í öðrum löndum víða er mönnum það metnaðarsök að halda erfðaóðali sínu og láta það eigi úr ætt ganga. En hjer selja menn jarðir sínar jafnskjótt sem einhver útlendingurinn kemur og býður þeim hátt verð, og flytja svo á mölina við sjóinn og hokra þar, oft og tíðum á horriminni.

Menn gera mikið úr því, að ræktun verði bæði miklu betri og fljótari á sjálfseignarjörðum. Jeg verð að segja, að þá er eitthvert óþarft ólag á, ef hún er ekki í eins góðu lagi hjá ábúanda landssjóðsjarðar. Landssjóður gæti þá tekið sjer þann rjett, sem landsdrotnar aðrir hafa nú, til að láta gera jarðabætur, ef leiguliði gerir þær ekki. Ef hann hefði þá sjerstakan mann til að ráða, hvar og hve nær byrja skyldi, myndu jarðabætur ganga fljótt og verða miklu stórfeldari en á jarðeignum í sjálfsábúð. (Þór. J.: Jeg skyldi hrekja þetta alt, ef jeg væri ekki dauður!)

Svo getur og verið, að ekki sje hægt að halda jörðunum í sjálfsábúð. Erfingjar geta verið dreifðir, eða jafnvel enginn erfingi verið á lífi. Jeg vildi þá helst óska, að hve nær sem jörð, er áður hefði verið landssjóðseign, losnaði og hana ætti að selja, þá keypti landssjóður hana.

Jeg hjó eftir því, að hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) álasaði stjórninni fyrir að vera ekki á verði gegn því, að jarðir kæmust í útlendinga hendur. Stjórnin á sjálfsagt ásökun skilið í þessu efni. Úr því að á þetta var minst, skal jeg geta þess, að sagt er, að uppsátur meðfram Ingólfsfirði hafi verið leigð útlendingum, án þess að Íslendingum væri gefinn kostur á landinu fyrst. (Atvinnumálaráðh.: Ekki núverandi stjórn!). Þá mun hjer annar til andsvara. Þetta álít jeg mjög illa farið. Siglufjörð mætti og nefna í þessu sambandi, en engum hjer í deildinni er hægt að kenna um það.

Af þessum ástæðum, sem jeg hjer hefi tekið fram, mun jeg greiða atkvæði með frv., og vona jeg, að með því verði sú stefnubreyting, að bæði verði alveg hætt að selja, og meira að segja jarðir keyptar, ef þær standa til boða,

Þá kom fram ósk um að hætta umr. þá þegar, frá M. P., Þór. J., H. K., M, G.,

E. Árna. og P. J. Var hún borin undir atkv. og samþ. með 13:7 atkv.