13.08.1917
Neðri deild: 32. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í C-deild Alþingistíðinda. (2464)

143. mál, verðhækkunartollur

Þórarinn Jónsson:

Það er kann ske þýðingarlítið að vera að lengja umræðurnar. Það hefir verið tekið fram, að grundvöllurinn sje fallinn undan lögunum. Því hefir enginn neitað.

Það er og bersýnilegt, að þótt stjórnin hækki skattlaust verð á sumum vörutegundum, þá hækkar verð á þeim í raun og veru ekki neitt. Verð á kjöti er hækkað um 25 kr. En salt og tunnur hafa hækkað svo í verði, að sú hækkun hverfur. Saltið í tunnuna kostar sjálfsagt um 10 kr. og trjeð eitthvað álíka, fram yfir það vanalega. Hækkunin verður því engin eða hjer um bil engin. Fleira mætti telja.

Það er ein ástæða, sem færð hefir verið fyrir framlenging verðhækkunartollsins, sem enn hefir ekki verið hrakin, sem sje sú, að tollurinn lendi í vasa kaupmannanna. Þeir sjeu búnir að kaupa vörurnar, en ekki að flytja þær út. En það er sama, hve nær tollurinn er upp hafinn, hvort það er gert fyr eða síðar; það verður alt af eitthvað af vörum, sem kaupmenn hafa fengið með verði, sem miðað var við tollinn, en ekki verða útfluttar þegar tollurinn fellur úr gildi. Eða halda menn, að 1. júlí 1918 verði engar vörur hjer óútfluttar? Það verður víst síst við því hætt þá, fremur en í hvern annan tíma. Mitt álit er, að sjálfsagt sje að afnema tollinn strax. Það eru ýmsar leiðir til að fylla í skarðið. Frá þeirri hlið er ekkert að óttast þótt tollinum verði slept, enda er hann, eins og nú stendur, alveg óeðlilegur.