09.07.1917
Neðri deild: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í C-deild Alþingistíðinda. (2532)

36. mál, verðhækkunartollur

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get ekki fallist á, að þetta sje rjett. Þótt nefndin yrði ekki tilbúin til að gefa rökstutt álit um verðhækkunartollslögin í heild sinni, gæti hún þó vel afgreitt þetta frv. Það er ekki ólíklegt, að það yrði ofan á, að undir engum kringumstæðum væri hægt að framlengja lögin í þeirri mynd, sem þau eru nú, og því held jeg, að þetta atriði ætti ekki að tefja. En ef verðhækkunartollslögin skyldu verða framlengd, held jeg, að það væri varla afsakanlegt að gera slíka breytingu á þeim. Mjer finst þessu máli yfirleitt svo varið, að það muni flýta fyrir því að vísa því til fjárhagsnefndar. Hitt er annað mál, að ef reyna ætti að finna aðra tekjustofna til að bæta upp þær tekjur, er landssjóður missir með verðhækkunartollinum, þá þyrfti þetta frv. ekki að bíða eftir því.