12.07.1917
Neðri deild: 8. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í C-deild Alþingistíðinda. (2549)

36. mál, verðhækkunartollur

Jörundur Brynjólfsson:

Að eins örstutt athugasemd.

Hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) þóttist ekki skilja afstöðu mína, þar sem jeg sagðist ekki vera með því að afnema ullartollinn, og færði til, að bændur munaði ekki um upphæðina og landssjóð ekki heldur.

Jeg vona, að hinn hv. þm. hafi tekið eftir því, að jeg vildi ekki láta taka út úr eina vörutegundina af þeim, sem þar eru; það væri ósanngjarnt. Jeg sýndi með tölum, hvað einn einstakan meðalbónda munaði þetta, og sýndi, að það gæti engan dregið. Það er formlega rangt að afnema ullarverðhækkunartollinn, en láta hina alla standa. En landssjóð getur munað miklu, ef allur tollurinn er afnuminn. Þá tapar hann miklu fje. Það vil jeg ekki, því að alls var þessi tollur í fyrra á 6. hundrað þúsund krónur.

Nú vona jeg, að hv. þingm. sje skiljanleg afstaða mín til þessa máls. Jeg hefi litið offljótlega á brtt. hv. þm. Dala. (B. J.), og ekki tekið eftir, að hún er brtt. Nú er jeg á móti afnámi alls verðhækkunartollsins, svo að jeg er í klemmu, með því að jeg veit ekki örlög brtt. En mun þó ráðast í að vera á móti hvorutveggju, í því trausti, að hvorki brtt. nje frumvarpið verði samþykt. Vona jeg, að þm. verði ekki svo ósanngjarnir að afnema að eins tollinn á ullinni.

Það er ekkert heldur, sem mælir með því.

Það er venjulega um mánaðamótin júní og júlí, sem vorkauptíð stendur yfir, eða í síðasta lagi um miðjan júlí. Það er því alveg áreiðanlegt, að þótt þetta frv. verði samþykt hjer strax, þá verða bændur búnir að flytja ull sína í kaupstað. (G. Sv.: Það gerir ekkert til). Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði, að oft væri dráttur á, að kveðið væri upp ullarverð, ef dráttur væri á því utanlands frá, en svo er ekki nú, því að ullarsala er bönnuð til Norðurlanda og fyrirfram ákveðið verð, sem Englendingar gefa fyrir hana og kaupmenn hljóta að miða við verð sitt.

(G. Sv.: Nema einhver breyting verði á). Jeg tel því best, að verðhækkunargjald verði greitt af þessa árs framleiðslu, hvort sem hún er flutt út fyrir 17. sept. eða ekki, og þá þarf að framlengja lögin. Það er vitanlegt, að ef semja á lög um líkt efni fyrir næsta ár, þá þarf nýjan grundvöll vegna breyttra kringumstæðna og kostnaðar. Jeg get ómögulega sjeð, að neitt mæli með að taka einn lið út úr. Það er ómótmælanlegt, að það er bændum enginn greiði, því að hvað munar þá um 3, 4, 5 eða 6 krónur?