18.07.1917
Efri deild: 10. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í C-deild Alþingistíðinda. (2561)

36. mál, verðhækkunartollur

Sigurður Eggerz:

Það er að eins örstutt athugasemd sem jeg vildi gera. Jeg vil mæla með, að frv. sje vísað til nefndar. Mjer er kunnugt um, að hv. Nd. hefir mikið rætt málið, og þótt ekki væri nema af kurteisi við hv. Nd., er rjett að vísa því til nefndar.

Hv. þm. Ak. (M. K.) mintist á verðhækkunartollinn, og vildi jeg þá að eins vísa til þess, er jeg hefi áður tekið fram, að jeg álít verðhækkunartollinn einhvern vitlausasta tollinn, sem til er á landi hjer, og því beri að afnema hann. Jeg hefi áður fært rök fyrir því, að það á helst enginn tollur að vera á sjálfri framleiðslunni.

Þessi mótmæli vildi jeg koma fram með gegn verðhækkunartollinum, úr því að um hann var rætt.