14.07.1917
Neðri deild: 10. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í C-deild Alþingistíðinda. (2593)

44. mál, stofnun stýrimannaskóla á Ísafirði

Flm. (Matthías Ólafsson):

Mjer þykir rjett að bæta fáum orðum við ástæðurnar, sem prentaðar eru með frv. þessu. Þörfin á stýrimannaskóla á Ísafirði er nú orðin mjög brýn. Skipum þar fjölgar árlega, og þeim svo stórum, að skipstjórar þeirra verða að hafa sömu þekkingu og fiskiskipstjóradeild stýrimannaskólans hjer í Reykjavík veitir. Nú er svo, að bæði er skólinn hjer mjög fjölsóttur, og auk þess sýnist ekki ástæða til að láta menn sækja þangað svo langa leið. Bæði er hjer dýrt að lifa og ýmislegt annað óhagræði; menn eiga örðugt með, samgangna vegna, að komast heim, og missa mikið af haustvertíð oft og einatt, vegna þess, að svo stendur á ferðum hingað til Reykjavíkur. Því er nú tími til kominn að setja þar upp slíkan skóla. Jeg hygg og, að hagsýnar þjóðir telji það vonlegt að setja þar stýrimannaskóla, er skip komi og dvelji á degi hverjum. Jeg hefi borið þetta mál undir stýrimannaskólastjórann hjer, og er hann því mjög hlyntur. Sagt er, að aðsóknin við skólann hjer sje þegar svo mikil, að ekki megi meiri vera, og þar verði von bráðar að stækka skólann og fjölga kennurum, ef svo haldi áfram. Vona jeg því, að þetta nauðsynjamál fái góðan byr hjer í þinginu, þótt það vitanlega baki landinu nokkurn kostnað. Eitt er víst, og það er, að þá mundi draga úr nemendafjölda þeim, er þyrpist hingað til Reykjavíkur á haustin og þrengir húsnæðið fyrir mörgum fjölskyldum.

Þótt jeg ætli ekki að fara út í einstök atriði frv„ skal jeg geta þess, að ætlast er til, að í sambandi við skólann sje komið á fót vjelfræðisnámsskeiði, er hverfi úr sögunni, þegar sjerstakur vjelfræðiskóli er þar kominn á stofn.

Jeg býst við, að óskir í sömu átt gætu komið fram frá öðrum fjórðungum, og þá einkum frá Norðlendingum, því að þeir standa svipað að vígi og Vestfirðingar að skipastólseign. En nú hafa Ísfirðingar eindregið beðið um þetta og vona, að þingið veiti þá tillátssemi að láta frv. ná fram að ganga. Það er ekki ætlast til stofnunar skólans í haust, ekki fyr en 1918, og gæti orðið lengur, ef styrjöldin stendur lengur. En hitt er áreiðanlegt, að skólastofnunin yrði landinu til gagns.