31.07.1917
Neðri deild: 21. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í C-deild Alþingistíðinda. (2706)

59. mál, mótorvélstjóraskóli

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Verður það, er varir, og það, er ekki varir. Nú heyri jeg það, sem jeg hafði ekki búist við að heyra, að hv. þm. Dala. (B. J.) er orðinn sparnaðarmaður. Og honum fer þá eins og þeim mönnum fer ávalt, sem ætla að fara að breyta á móti eðli sínu, að hann kemst út á glapstigu, vill fara að spara þar, sem ómögulegt er að spara, og síst af öllu borgar sig að spara. Jeg hefi áður bent á það, að það er ekki hægt, nema með stórum erfiðleikum og miklum tilkostnaði, að gera skólann hjer svo úr garði, að hann geti fullnægt vjelstjóraþörfinni. Til þess þyrfti ekki einungis að bæta við kennara, heldur mörgum kennurum, og auka húsrúm og aðbúnað svo mikið, að hæpið er, að það verði ódýrara en að stofna skóla þá, sem frv. fer fram á. Hv. þm. (B. J.) finst það ástæðulaust að hafa skólana marga. Í öðrum löndum þykir þó ástæða til að hafa skóla handa sjómönnum dreifða, og það þótt samgöngur sjeu í svo góðu lagi, að hægt sje að komast frá einum landshluta til annars á fáum klukkustundum. Jeg get ekki skilið, að ástæðan sje minni hjer.

Þá vitnaði hv. þm. (B. J.) til þess, að mentaskóli væri að eins einn á landi hjer. Áður þóttust menn ekki geta komist af með minna en tvo lærða skóla, enda hafa þeir lengst af verið tveir. Nú eru líka aftur farnar að heyrast raddir, sem eru óánægðar með það, að mentaskólinn sje ekki nema einn, og vilja láta stofna annan. Þetta bendir einmitt til þess, að menn finna þörf á því, að skólarnir sjeu sem víðast. Það er líka eðlilegt, að mönnum þyki ilt og óþægilegt að sækja langt að til dýrasta staðarins á landinu, en það er einmitt hjer í Reykjavík. Hv. þm. (B. J.) vill hafa skólana sem fullkomnasta. En honum er líklega ekki kunnugt um það, að hvergi í heimi er heimtuð jafnmikil þekking í sjómannafræði, til þess að mega vera skipstjóri á smærri skipum, eins og okkar skip eru flest, — hvergi í heimi heimtuð jafnmikil þekking og hjer á landi. Og það er hreint og beint óþarfa kostnaður að gera jafnmiklar kröfur í stýrimannafræði eins og sjómannaskólinn hjerna gerir, til þess að stjórna mótorbátum eða smærri fiskiskipum. Fyrir því mætti vel veita þá fræðslu, sem þörf er á til þess, við smærri skóla úti um land. Sem sagt, jeg efast um, að kostnaðurinn yrði minni, ef skólarnir hjer væru stækkaðir svo, sem þyrfti. Hvað þá ef greiða ætti ferðakostnað og dvalarkostnað nemendanna, eins og hv. þm. Dala. (B. J.) talaði um. Enda mun það ekki hafa verið sagt í alvöru. — En eitt skal jeg játa, að nefndinni hefir láðst að bera fjárhagsatriðið undir fjárveitinganefndina, eins og sjálfsagt er að gera um önnur eins lög og þessi. Ef til vill er það það, sem brennur í hv. þm. (B. J.). Og til þess að bæta úr þessari vangá nefndarinnar vil jeg leyfa mjer að biðja hv. forseta að taka bæði þetta mál og næsta mál út af dagskrá. Þau eiga að fylgjast að, svo að sjálfsagt er, að eitt gangi yfir bæði.

Að lokum skal jeg geta þess, viðvíkjandi málinu á frumvarpinu, að það er gert með fullum ásetningi að halda orðinu „mótor“. Það er gert til þess að slá því föstu, svo að menn hætti að vera á sífeldu reiki með það. Nú heyrir maður jöfnum höndum viðhöfð ótalmörg nöfn, svo sem rennibátur, bifbátur, vjelbátur, bifvjelarbátur, skellibátur o. fl. o. fl. Jeg vil að orðið „mótorbátur“ o. s. frv. fái þá festu í málinu, að það útrými öllum öðrum nöfnum, og því hefi jeg tekið það upp í frv. Þó að það sje útlent, þá fer svo vel á því í íslensku máli, að mjer finst mega vel við una, og það tekur fram öllum öðrum nöfnum, sem hingað til hefir verið reynt að mynda.