21.07.1917
Neðri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í C-deild Alþingistíðinda. (2718)

79. mál, einkaréttur til þess að veiða lax úr sjó

Flm. (Matthías Ólafsson):

Mjer þykir hv. þm. Borgf. (P. O.) taka hart á jafnsaklausu frv. og þetta er. Það hljóðar að eins um að veita landsstjórninni heimild til að veita rjett, sem hún myndi alls ekki veita, ef hún teldi hann skaðlegan. Einkaleyfisins þyrfti bara með meðan maðurinn er að reyna fyrir sjer, hvort þessi atvinnuvegur muni borga sig hjer á landi. Þetta mundi baka honum töluverðan kostnað í byrjun, og óvíst, að hann næði honum upp, ef hann ætti við samkepni að búa, bæði á sjónum og markaðinum. Engin sönnun er heldur fyrir því, að laxveiði í ám spillist. Sami laxinn, sem veiðist í sjónum, gengi auðvitað ekki upp í árnar, en það gengi þá annar í staðinn. Og það ætti hv. þm. Borgf. (P. O.) að vera kunnugt, að laxveiðibændur hafa engan sjerstakan rjett yfir sjónum frá 60 föðmum frá landi og út að landhelgislínunni; það svæði er öllum mönnum jafnfrjálst. Einkaleyfishafi býðst og til að veita einum manni á ári tilsögn í meðferð veiðitækja þeirra, er hann notar. Þetta gæti orðið mörgum mönnum góður atvinnuvegur. Enn fremur er það ein ástæðan til, að beðið er um einkaleyfið um svona langan tíma, að það er hreint ekki víst, að leyfishafa hepnist tilraunir sínar fyrstu árin. Það hefir komið fyrir, og getur komið fyrir enn, að laxinn leggist frá í 4—5 ár. En fyrir leyfishafa er það töluverð áhætta að byrja.

Jeg sje ekki, að það geti orðið hættulegt, að nefnd verði látin athuga málið, og vona, þó að hv. þm. Borgf. (P. O.) sje bænheitur, þá muni deildin samt ekki bænheyra hann að þessu sinni.