02.08.1917
Neðri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í C-deild Alþingistíðinda. (2748)

88. mál, veiting læknishéraða

Flm. (Sigurður Sigurðsson):

Það er að eins örstutt athugasemd. Andstæðingar mínir segja um mig, að jeg hafi ekki hrakið neitt af því, sem þeir hafa sagt, og jeg get sagt það sama um þá. Jeg stend upp vegna áskorunar hv. þm. Stranda. (M. P.). Jeg get gjarnan nefnt nöfn þessara lækna, sem jeg átti við í ræðu minni, við landlækni, því að jeg er ekkert hræddur við það, en hins vegar sje jeg enga ástæðu til að nefna þá í blöðunum eða hjer í salnum, því að viðkomandi hjeruð eru ekkert betur sett fyrir það. Jeg get, meira að segja, talað rólega um það undir fjögur augu við hv. þm. Stranda. (M. P.), sem mjer fanst taka þessi orð mín óþarflega illa upp, því að sjálfur er hann góður læknir. Jeg get sagt það, að þegar jeg verð lasinn á ferðalagi, ber jeg mikla áhyggju út af því að vera ekki nálægt góðum læknum. Jeg lagðist fyrir skömmu, þegar jeg var á ferðalagi, og hefði sú veiki elnað, ætlaði jeg að gera ráðstafanir til, að hv. þm. Stranda. (M. P.) yrði sóttur til mín, enda þótt aðrir læknar væru nær. Þetta sýnir, hve mikils er um það vert að geta notið góðs læknis, og hvað menn leggja mikið upp úr því.