08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í C-deild Alþingistíðinda. (2759)

99. mál, sveitarstjórnarlög

Forsætisráðherra (J. M,):

Jeg hygg, að ef gera á breytingu í þessa efni, þá ætti hún fremur að koma fram í fátækralögunum en sveitarstjórnarlögunum. Það ætti að mega gera þannig, að styrkur sem þessi væri alls ekki talinn sveitarstyrkur. Menn, sem nytu slíks styrks ættu að hafa kosningarrjett bæði í sveitamálum og til Alþingis, en til þess þarf stjórnarskrárbreyting. Mjer finst það jafnvel fjær sanni, að menn, sem eru upp á sveitirnar komnir, ráði nokkru um sveitarmál, fremur en um landsmál. Jeg vil þó undan taka þá, sem njóta styrks af ósjálfráðum orsökum. Þetta væri leiðin, en ekki sú, sem flm. (B. St.) hefir ætlað að fara. Að vísu væri nokkur bót að frv. hans, en hún er svo lítil, að það væri að eins kák að vera að breyta sveitarstjórnarlögunum af þeirri ástæðu.