28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í C-deild Alþingistíðinda. (2906)

163. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sigurður Stefánsson:

Það sje fjarri mjer að vilja með orðum mínum vekja ríg eða kala milli sjávarútvegs og landbúnaðar, eða ala á honum, sje hann einhver, því að óheill hlýtur að fylgja því, ef þeir vinna ekki saman í bróðerni, sem þessa atvinnuvegi stunda, Og styðja hvorir aðra. En, eins og nú stendur á, sje jeg ekki fært að hækka gjöld á sjávarútvegi. Hafi nokkurn tíma verið ástæða til að ljetta af honum gjöldum, í stað þess að þyngja þau, þá er það einmitt nú. Þó dettur mjer ekki í hug að fara fram á það, og er þar þó fordæmi eftir að fara. Þegar landbúnaðurinn átti sem örðugast uppdráttar hjer um árið, sökum hafísa og harðæris, þá taldi þingið sjer skylt að ljetta af honum lausafjárskattinum, sem má þó teljast fremur ljettur skattur. Síst átti bann þó örðugra uppdráttar þá en sjávarútvegurinn nú. Og á hverja á svo að leggja þenna gjaldauka? Á menn, sem hafa tapað stórfje á þessum atvinnuvegi, og sumir svo, að þeir eru á gjaldþrotabarminum? Raddir um neyðarástand og fjeþrot fjölda sjávarútvegsmanna hafa borist hingað inn í salinn, svo að ekki er hægt því við að bera, að þingmönnum sjeu ókunnar horfur sjávarútvegsins um þessar mundir. Þegar nú þessi atvinnuvegur liggur svo að segja fyrir dauðans dyrum, þá er í alvöru verið að hugsa um að ráðast á hann og íþyngja honum með 100% gjaldauka. Jeg krefst þess, að hann sje í friði látinn. En hitt heimta jeg ekki, að hækkuð sjeu gjöld á landbúnaðinum, því að jeg veit, að hann á líka við töluverða örðugleika að stríða, og þessir örðugleikar munu vaxa, ef sjávarútvegurinn bregst. Það er svo sem ekki ástæðulaust, eins og nú er gengið frá fjárlögunum, þótt reynt sje að finna nýjar tekjulindir fyrir landssjóð. En það er og annar vegur til að láta tekjur og gjöld standast betur á en fjárlagafrv. sýnir, en að auka tekjurnar með gífurlegum sköttum á atvinnuvegi landsins; hann er sá, að minka gjöldin með því að spara það, sem sparað verður. Menn verða jafnan að sníða sjer stakk eftir vexti, og þá ekki síst á slíkum tímum, sem þessum. Mjer hefir verið sagt, að tekjur og gjöld hafi hjer um bil staðist á í fjárlagafrv. stjórnarinnar, en nú er tekjuhallinn orðinn á áttunda hundrað þús. kr. Ef gætilega hefði verið að farið, hefði sjálfsagt mátt spara töluvert af útgjöldunum, og þá hefði verið minni þörf á, að vera að leita að nýjum tekjustofnum, eða hækka gjöldin eins gífurlega og hjer er í ráði. Hvað sem tautar, er það ekki ráðlegt nje álitlegt, hvorki fyrir sjávarútveg nje landbúnað, að í þessu árferði sje stórhækkaður tollur af sjávarafurðum.

Þótt það muni sumum þykja kotungslegur hugsunarháttur, þá held jeg því fram, að nú sje slík vá fyrir dyrum, að eigi tjói annað en að draga saman seglin og spara alt hvað sparað verður; þegar jafnvel hungurvá er fyrir dyrum, þá árar ekki til að leggja út í neitt það, er á nokkurn hátt má fresta eða undanfella. Svo fara forsjálir bændur að ráði sínu, og þá ætti þjóðarþing Íslendinga eigi síður að gera það, og vitanlega er fátt víssara til að baka því óvinsældir en ef það fer nú að íþyngja atvinnuvegum landsins með auknum gjöldum, ekki síst ef það legst á þann, sem erfiðast á uppdráttar, sjávarútveginn. Mun jeg ekki hika við að greiða atkvæði móti frumvarpinu og óska, að það væri komið 18 álnir ofan í jörðina.