29.08.1917
Neðri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í C-deild Alþingistíðinda. (2916)

172. mál, markalög

Þorleifur Jónsson:

Mjer hefir ekki tekist að finna sjerlega margt í þessu frv., sem væri nýtt og miðaði til bóta. Hið fáa, sem er nýtilegt í því, er tekið úr fornum lögum og reglugerðum sýslunefndanna. Aðalnýmælið í frv., aðal „glanspunkturinn“, er vitanlega þessi „markgreifi, eða markakongur, sem á að sitja hjer í Reykjavík og ráða yfir fjármörkum. Satt að segja hygg jeg, að nóg sje hjer af skrifstofum og allskonar „skriffinsku“, svo að ekki sje mikil þörf á að bæta einni nýrri við fyrir fjármörk, með föstum, launuðum forstöðumanni, auk þess, sem þetta mun ekki verða til annars en trafala og stórkostnaðar, því að ef að líkindum lætur, mun kostnaðurinn ekki verða að eins 20 þús., heldur 30—40 þús. kr. Mjer skilst, að nefndin hafi einungis reiknað gjöld fyrir eyrnamörk, en eftir frv. á að greiða jafnhátt gjald fyrir skrásetning brennimarka, og þau slaga hátt upp í eyrnamörkin að tölu til. Þess vegna mun óhætt að tvöfalda þá upphæð, sem tiltekin er hjer í frv. Hvað snertir þessa skrásetningu, sem talað er um í frv., þá skil jeg ekki, hvað meint er með því. Hvort þessi markaskrá á að gilda fyrir alt landið um lengri tíma, eða hvort ætlast er til, að allsherjarskrásetning fari fram í hvert sinn og markaskrár sýslnanna eru prentaðar. Yfirleitt fæ jeg ekki sjeð, að þetta sje til nokkurra bóta, nje heldur, að það geti komið í veg fyrir þann rugling á mörkum, sem menn gera svo mikið úr, og miklu meira en vert er. Því að það mun vera venja víðast, að sá maður, sem undirbýr markaskrár sýslnanna undir prentun, kynni sjer rækilega markaskrár í næstu sýslum og stuðli að því, að menn hafi ekki sammerkt við aðra, þar sem fje getur gengið saman. — Það er ekki gott að sjá, hvers vegna hv. landbúnaðarnefnd hefir tekið ástfóstri við þetta frv., sem er ekkert annað en hreinasti óþarfi, og fjarri því, að hjer sje um nokkurt þjóðþrifamál að ræða. Jeg tel frv. ekki þess vert, að haldið sje í því lífinu, og þætti mjer því æskilegast, að það yrði felt nú þegar.